Erlent

Ellefu ára stúlka í hópi látinna í eld­flauga­á­rás á Kænu­garð

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla í Kænugarði á vettvangi eftir eldflaugaárás Rússa í nótt.
Lögregla í Kænugarði á vettvangi eftir eldflaugaárás Rússa í nótt. AP

Ellefu ára stúlka, 34 ára móðir hennar og önnur 33 ára kona létust í eldflaugaárásum Rússa í Kænugarð snemma í morgun. Auk þess særðust tólf manns í árásunum.

BBC hefur þetta eftir talsmönnum úkraínskra yfirvalda. Þar segir að eldflaugavarnakerfi Úkraínuhers hafi eyðilagt allar tíu eldflaugarnar sem Rússar skutu á borgina en brak úr þeim hafi hins vegar skemmdum á einni blokk, tveimur skólum, lögreglustöð og heilsugæslu.

Árásirnar voru gerðar í hverfinu Desnyanskí og Dniprovskí.

Talsmenn úkraínskra yfirvalda greindu upphaflega frá því að tvö börn hafi látist í árásunum, en þær upplýsingar voru síðan dregnar til baka.

Um er að ræða fjórðu eldflaugaárás rússneska hersins á Kænugarð í þessari viku og hafa þær flestar átt sér stað að næturlagi.

Talsmenn rússneska hersins segja frá því að fimm hafi látist og nítján særst í árásum úkraínska hersins í hinu hernumda Lúhansk-héraði í gær.


Tengdar fréttir

Segir árásina á Moskvu vera hryðjuverk

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að drónaárás á Mosvku í morgun sé hryðjuverk. Árásinni hafi verið ætlað að hræða Rússa og ögra Rússum til að bregðast við með sambærilegum hætti.

Dróna­á­rásir á Kænu­garð og Moskvu í nótt

Drónaárásir voru gerðar á Kænugarð í Úkraínu og Moskvu í Rússlandi í nótt. Einn lést og nokkrir særðust í Kænugarði, þar sem hermálayfirvöld sögðust hafa skotið niður yfir 20 dróna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×