Erlent

Fimm­tán ára stúlka á­kærð fyrir ní­tján morð

Árni Sæberg skrifar
Heimavistinni hafði verið læst innan frá þegar hún brann.
Heimavistinni hafði verið læst innan frá þegar hún brann. Almannaupplýsingaráðuneyti Gvæjönu/AP

Fimmtán ára gvæjönsk stúlka hefur verið ákærð fyrir að hafa myrt átján skólasystur sínar og fimm ára dreng í síðustu viku, með því að hafa lagt eld að heimavistarskóla. Hún gæti átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Lögreglan í Gvæjönu telur að stúlkan hafi kveikt eld í heimavist stúlkna við Mahdia gagnfræðaskólanum, sem sér börnum úr þorpum frumbyggja landins fyrir menntun, til þess að ná sér niður á heimavistarverði sem hafði gert farsíma hennar upptækan.

Í frétt Guardian um málið segir að ákveðið hafi verið að rétta yfir stúlkunni sem fullorðnum einstaklingi og því liggi allt að lífstíðarfangelsi við meintum brotum hennar.

Stúlkan kom fyrir rétt í Georgetown, höfuðborg Gvæjönu, í gegnum fjarfundarbúnað í dag en henni var ekki gefinn kostur á að tjá sig um sakarefnið. Hún mun koma aftur fyrir dóm þann 5. júlí, þegar ákveðið verður hvort efnisleg meðferð á máli hennar fari fram. Þangað til fær hún að dúsa í gæsluvarðhaldi.

Vistarvörður hafði læst öllum dyrum

Eldurinn kviknaði, eða var kveiktur, skömmu fyrir miðnætti sunnudaginn 21. maí síðastliðinn. Þá hafði vistarvörður heimavistarinnar læst öllum fimm dyrum vistarinnar innan frá. Gerald Gouveia, öryggisráðgjafi ríkisstjórnar Gvæjönu, hefur sagt að vörðurinn hafi læst stúlkurnar inni til þess að koma í veg fyrir að þær færu út á lífið. Þegar eldurinn geisaði hafi hann svo í óðagoti átt erfitt með að taka dyrnar úr lás.

Sem áður segir brunnu átján stúlkur inni og fimm ára drengur. Þá slösuðust á þriðja tug nemenda, flestir lítillega en einn hefur verið fluttur í lífshættu á sjúkrahús í New York í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×