Viðskipti innlent

Bein útsending: Ársfundur Samáls

Máni Snær Þorláksson skrifar
Frá ársfundi Samáls í fyrra.
Frá ársfundi Samáls í fyrra. Aðsend

Ársfundur Samáls fer fram í Norðurljósasal Hörpu í dag. Á fundinum verða pallborðsumræður um áskoranir og tækifæri í loftslagsmálum. Þá verða einnig til sýnis hönnunarmunir. Hægt er að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu hér á Vísi.

Októ, heiðurspendúll og bekkurinn Ból eru á meðal hönnunarmuna sem verða til sýnis á ársfundi Samáls í dag. Þar mun vöruhönnuðurinn Tinna Gunnarsdóttir flytja erindi undir yfirskriftinni Hringrás og hönnun. Einnig verða á borðum prófíllampi, kör og hulin hjörtu.

Fram kemur í tilkynningu vegna fundarins að Tinna hafi lengi notað ál í hönnunarmuni af ýmsum toga. Hún hafi talað um að fá álið „lánað“ í hönnunina en svo haldi hringrásin áfram.

Yfirskrift ársfundarins, sem hefst kl. 8:30, er „Hring eftir hring eftir hring” og mun Rannveig Rist, forstjóri ISAL og stjórnarformaður Samáls, fara yfir stöðu og horfur í áliðnaði á honum. Þá mun Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku-, og loftslagsráðherra, flytja ávarp.

Að því loknu mun Dagmar Ýr Stefánsdóttir stýra pallborðsumræðunum með Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, og Steinunni Dögg Steinsen, yfirmanni öryggis- og umhverfismála hjá Century Aluminium, móðurfélagi Norðuráls.

Einnig verða pallborðsumræður um nýsköpun í áliðnaði en þar verða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Sunna Ólafsdóttir Wallevik, stofnandi og framkvæmdastjóri Gerosion.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, lokar svo fundinum með erindi sem ber yfirskriftina „Hring eftir hring eftir hring“.

Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu frá ársfundinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×