Erlent

Mútu­greiðslu­málið tekið fyrir í miðju for­vali fyrir for­seta­kosningarnar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Donald Trump er enn sem komið er lang líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins.
Donald Trump er enn sem komið er lang líklegastur til að hljóta útnefningu Repúblikanaflokksins. AP/Darron Cummings

Dómsmálið gegn Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, þar sem hann er sakaður um bóhaldssvik í tengslum við greiðslur til klámmyndastjörnunnar Stormy Daniels, verður tekið fyrir 25. mars næstkomandi.

Trump verður þá í miðri kosningabaráttu en atkvæðagreiðslur í forvali Repúblikanaflokksins hefjast í febrúar og lýkur í júní. Trum segist saklaus af öllum ákæruliðum, sem eru 34 talsins.

Forsetinn fyrrverandi skrifaði á samfélagsmiðil sinn Truth Social í gær að um væri að ræða afar ósanngjarna ákvörðun af hálfu dómarans í málinu og inngrip inn í kosningarnar. 

Dómarinn, Juan Merchan, sagði þegar hann tilkynnti um dagsetningu fyrirtökunnar að takmarkanir á því hvað Trump mætti segja og gera í tengslum við málið myndu ekki hamla kosningabaráttu hans.

Merchan sagði Trump sannarlega frjálst að neita ásökununum og að grípa til varna.

Trump var í maí síðastliðnum fundinn sekur um að hafa beitt dálkahöfundinn E Jean Carroll kynferðislegu ofbeldi. Hún hefur nú höfðað skaðabótamál gegn honum fyrir ummæli sem hann lét falla á CNN eftir að dómur féll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×