Erlent

Neyðarástand að skapast í Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í fjórum héruðum Frakklands. Þessi mynd var tekin nærri bænum Perpignan í Frakklandi í síðustu viku. Ástandið er einnig mjög alvarlegt á Spáni.
Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í fjórum héruðum Frakklands. Þessi mynd var tekin nærri bænum Perpignan í Frakklandi í síðustu viku. Ástandið er einnig mjög alvarlegt á Spáni. EPA/Guillaume Horcajuelo

Yfirvöld í Suður-Evrópu standa frammi fyrir miklum þurrkum í sumar en vatn skortir nú þegar á nokkrum svæðum og bændur óttast mikinn uppskerubrest. Takmörkuð úrkoma í nokkur ár og aukinn hiti hefur dregið verulega úr stöðu vatnsbóla og grunnvatns í sunnanverðri Evrópu.

Í frétt Reuters segir að ástandið sé hvað verst á Spáni og í suðurhluta Frakklands, þar sem jörðin sé orðin skraufþurr. Óttast sé að vatnsskorturinn muni koma niður á orkuframleiðslu í sumar.

Síðasta sumar var heitasta sumar Evrópu frá því mælingar hófust og því fylgdi þurrkur sem sérfræðingar segja hafa verið þann versta í minnst fimm hundruð ár, samkvæmt Reuters.

Spænskur vísindamaður sem ræddi við fréttaveituna segir að ástandið muni ekki skána fyrir sumar. Það þurfi svo mikla rigningu til þess. Það sem af er þessu ári hefur rigning minnst minni en helmingur af meðaltali á tímabilinu og vatnsból eru um það bil hálffull.

Landbúnaðarráðherra Spánar hefur leitað til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins eftir fjárhagsaðstoð vegna ástandsins og segir í bréfi sem blaðamenn Reuters hafa séð að umfang þurrka sé svo mikið að eitt ríki ráði ekki við þá.

Þurrasti vetur Frakklands í áratugi

Veturinn í Frakklandi var sá þurrasti frá 1959 og er þegar búið að lýsa yfir neyðarástandi í fjórum héruðum landsins.

Í frétt France24 frá því í síðasta mánuði segir að jöklar í Ölpunum séu að minnka hratt og að um tveir þriðju áa Evrópu séu vatnslitlar. Úrkoma hafi verið lítil um alla heimsálfuna og hiti mikill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×