Viðskipti innlent

Ekki Samherji sem biðst afsökunar

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, segir fyrirtækið hafa beðið um að vefsíðan verði tekin niður. 
Karl Eskil Pálsson, upplýsingafulltrúi Samherja, segir fyrirtækið hafa beðið um að vefsíðan verði tekin niður.  Vísir

For­svars­menn Sam­herja segjast ekki vera að baki heima­síðu sem ó­prúttnir aðilar hafa búið til í nafni fyrir­tækisins. Á heimasíðunni má finna falsaða fréttatilkynningu þar sem beðist er afsökunar á framferði Samherja í Namibíu.

Karl Eskil Páls­son, upp­lýsinga­full­trúi Sam­herja, segir í sam­tali við Vísi að falsaða heima­síðan sé vistuð í Bret­landi. Hann segir að fyrir­tækið hafi óskað eftir því að hún verði tekin niður.

Á falsaðri vef­síðu Sam­herja stendur flenni­stórum stöfum á skjánum að fyrir­tækið biðjist af­sökunar. Í til­kynningu á hinum falsaða vef segir að fyrir­tækið heiti betr­um­bót og sam­starfi við yfir­völd vegna málsins.

„Þetta er fölsk síða sem er engan veginn á okkar vegum og frétta­til­kynning sem send var út í gegnum þess­sa fölsku heima­síðu tengist Sam­herja á engan hátt,“ segir Karl Eskil.

Hann segir for­svars­menn fyrir­tækisins hafa orðið varir við síðuna í morgun. Hann segir greini­legt að síðan hafi verið unnin af fag­fólki.

„Það hefur verið óskað eftir því við þar­til­bær yfir­völd að þessi vef­síða verði tekin niður enda engan veginn á vegum fyrir­tækisins,“ segir Karl Eskil.

„Þetta er vel upp sett heima­síða, greini­lega gerð af fag­fólki þar sem okkar stafa­gerð og lógó er notað. Þetta er al­vöru heima­síða og gríðar­lega mikil vinna lögð í þessa heima­síðu og send út frétta­til­kynning í gegnum þessa síðu og það er náttúru­lega eitt­hvað sem ekki er hægt að búa við og við höfum óskað eftir því að þessi síða verði tekin niður.“

Vísir/Skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×