Viðskipti innlent

Stígi skref til baka í átt að sjálf­stæðara FME

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að ákvarðanir vegna sameiningar Seðlabankans og FME séu í stöðugri endurskoðun. 
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, segir að ákvarðanir vegna sameiningar Seðlabankans og FME séu í stöðugri endurskoðun.  Vísir/Arnar

Seðla­banka­stjóri segir að sér finnist ekki ó­lík­legt að stigin verði skref til baka frá sam­einingu Seðla­bankans og Fjár­mála­eftir­litsins í átt að því að gera eftir­litið sjálf­stæðara.

Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi efna­hags-og við­skipta­nefndar Al­þingis í morgun. Þar mætti Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri á­samt vara­seðla­banka­stjóranum Björk Sigur­gísla­dóttur og Unni Gunnars­dóttur, fyrr­verandi vara­seðla­banka­stjóra fjár­mála­eftir­litsins.

Þar ræddi þrí­eykið skýrslu fjár­mála­eftir­lits­nefndar Seðla­banka Ís­lands fyrir árið 2022. Var Ás­geir spurður af því af þing­mönnum út í á­hyggjur sem viðraðar hafa verið af AGS af víðu vald­sviði Seðla­banka­stjóra.

„Eftir tvö þrjú ár ekki ó­lík­legt að við skoðum þetta upp á nýtt. Mér finnst ekki ó­lík­legt að við jafn­vel stígum skref til baka í átt að því að gera eftir­litið sjálf­stæðara. Lykil­at­riðið er að það er ekki til nein ein leið í þessu.“

Ás­geir leggur á­herslu á að sam­einingin sé í stöðugri endur­skoðun. Hann segist telja að það hafi verið nauð­syn­legt að sam­eina stofnanirnar, niður­stöður út­tekta bendi til þess að sam­einingin hafi heppnast vel.

„Það var þannig upp­haf­lega að banka­eftir­litið var tekið út úr Seðla­bankanum 1998 og ég held að það hafi verið mis­tök. Þetta var gert rétt fyrir einka­væðingu og ég held að það hafi verið einn af or­saka­þáttum hrunsins. Þetta var að mörgu leyti ó­heppi­leg skipting sem til dæmis kom fram þegar for­svars­menn Glitnis komu og ætluðu að fá lán hjá Seðla­bankanum. Sem dæmi.“

Hafi meira vægi með Seðla­bankanum

Ás­geir segir að fólk geti haft skoðanir á því hversu nærri fjár­mála­eftir­liti seðla­banka­stjóri á að koma.

„Ég er for­maður fjár­mála­eftir­lits­nefndar þegar teknar eru á­kvarðanir um þrjá kerfis­legar mikil­væga banka. Annars tek ég ekki þátt í á­kvörðunum.“

Hann segist hafa reynt að koma ekki ná­lægt á­kvörðunum um fjár­mála­eftir­lit að nauð­synja­lausu. Fjár­mála­eftir­litið og á­kvarðanir þess hafi meira vægi með Seðla­bankann með sér.

„Svo skiptir máli að það er allt annað að fylgja eftir úr­skurði Fjár­mála­eftir­litsins þegar Seðla­bankinn er að baki. Eg held að leið­beiningar og á­kvarðanir Fjár­mála­eftir­litsins hafi þannig mun meira vægi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×