Erlent

„Absúrd“ að Karl sé kóngur í Karíba­hafi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Brátt mun koma í ljós hvaða áhrif krýning nýs konungs mun hafa á breska konungsveldið.
Brátt mun koma í ljós hvaða áhrif krýning nýs konungs mun hafa á breska konungsveldið. Aaron Chown/WPA Pool/Getty

For­sætis­ráð­herra eyja­ríkisins Sankti Vin­sent og Grenadína í Karíba­hafi segir það „absúrd“ að Karl Breta­konungur sé þjóð­höfðingi ríkisins. Hann segist myndu vilja sjá valda­tíma Karls á eyjunum líða undir lok á sinni lífs­tíð.

Það er breska ríkis­út­varpið sem greinir frá um­mælum for­sætis­ráð­herrans Ralph Gonsalves. Ráð­herrann segir að hann myndi glaður þiggja af­sökunar­beiðni frá breska ríkinu og konungs­veldinu fyrir þræla­hald fyrri alda.

Karl er þjóð­höfðingi átta ríkja í Karíba­hafinu. Á síðast­liðnu ári hafa leið­togar Bahamas, Belís, Grenada, Jamaíka, Sankti Kitts og N­evis, auk Antígva og Bar­búda allir lýst því yfir að þau hyggist taka til endur­skoðunar stöðu Karls sem þjóð­höfðingja. Um­ræðan fór á flug eftir að Elísa­bet Bret­lands­drottning lést á síðasta ári.

Segir breskan þjóðhöfðingja móðgun

For­sætis­ráð­herrann Gonsalves segir að vera bresks þjóð­höfðingja í landinu móðgi þjóðina og minni hennar. Hann segist styðja breytingar á stjórnar­skránni svo að landið verði lýð­veldi með kjörinn for­seta.

Ey­ríkið hélt þjóðar­at­kvæða­greiðslu um málið árið 2009. Þar var al­menningur spurður hvort hann væri til í að landið yrði lýð­veldi með kjörinn for­seta.

45 prósent kjós­enda studdi myndun lýð­veldis en tveir þriðju hluta kjós­enda þarf til að breytingarnar gangi í gegn. Gonsa­les segist ætla að beita sér fyrir því að kosið verði aftur um málið.

Þjóðin ó­sam­mála

Þrátt fyrir sterkar skoðanir for­sætis­ráð­herrans hefur ný­leg skoðana­könnun sýnt að 63 prósent þjóðarinnar myndi hafna stofnun lýð­veldis á kostnað bresku krúnunnar. Einungis 34 prósent myndu styðja hug­myndina.

Í til­kynningu frá bresku konungs­fjöl­skyldunni segir að það sé í höndum stjórn­valda hvers ríkis að á­kveða breytingar á stjórnar­skrá þeirra. Sjálfur segir Gonsalves að hann myndi taka fagnandi af­sökunar­beiðni frá Karli vegna for­tíðar Bret­lands er varðar þræla­hald.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×