Skoðun

0,0

Inga Sæland skrifar

Í nýrri fjár­mála­áætl­un rík­is­stjórn­ar­inn­ar fyr­ir árin 2024-2028 seg­ir fjár­málaráðherra, Bjarni Bene­dikts­son, að fel­ist skýr mark­mið. Meðal ann­ars sé eitt mark­miðanna að styðja við Seðlabank­ann í því verk­efni að tempra verðbólgu. Því­líkt froðusnakk! Það fer ekki fram hjá nein­um að þetta er inn­an­tómt blaður. Við get­um kinn­roðalaust skrifað ófremd­ar­ástand ok­ur­vaxta og him­in­hárr­ar verðbólgu bein­ustu leið á stjórn­völd. Stjórn­völd sem hafa troðið fingr­un­um í eyr­un og sett leppa fyr­ir bæði aug­un, svo ein­beitt eru þau í að hunsa hjálp­ar­köll­in sem ber­ast frá Svörtu­loft­um, um aðstoð í bar­átt­unni við verðbólgu­draug­inn. Stjórn­völd eru harðákveðin í því að vaxta­hækk­un­ar­sveðjunni verði áfram höggvið af full­um þunga þar sem þegar hafa verið opnuð svöðusár.

Í lönd­un­um í kring­um okk­ur sjá­um við hvernig þjóðirn­ar tak­ast með mis­mun­andi hætti á við verðbólg­una. Á Spáni sem dæmi lækkaði verðbólg­an um heil tvö pró­sentu­stig á milli mánaðanna fe­brú­ar og mars. Hvernig fóru Spán­verj­ar að því? Spænsk stjórn­völd lækkuðu álög­ur á bens­ín. Á sama tíma ákvað rík­is­stjórn Íslands að hækka hvern ein­asta bens­ín­lítra um níu krón­ur. Spænsk stjórn­völd drógu úr öll­um álög­um hvaða nöfn­um sem þær kunna að nefn­ast á meðan ís­lensk stjórn­völd réðust af afli á sam­fé­lagið með krónu­tölu­hækk­un­um. Skatta­hækk­an­irn­ar skiluðu sér svo beina leið út í verðlagið sem víta­mín­bætt fóður fyr­ir verðbólg­una. Hvarflaði að þeim að sækja þess­ar krón­ur í stór­út­gerðina sem græðir sem aldrei fyrr? Eða í bank­ana sem merg­sjúga sam­fé­lagið með ok­ur­vöxt­um og verðtrygg­ingu? Nei, að sjálf­sögðu hvarfl­ar ekki að þeim að sækja fjár­magn þar sem nóg er af því fyr­ir og all­ar hirsl­ur eru yf­ir­full­ar af pen­ing­um millj­arðamær­ing­anna sem þessi rík­is­stjórn vernd­ar með kjafti og klóm und­ir for­ystu VG. Ef ein­hver hef­ur velkst í vafa um að þetta sé rík­is­stjórn sér­hags­muna þá hlýt­ur sann­leik­ur­inn nú að blasa við. Rík­is­stjórn sér­hags­muna­afl­anna stend­ur aðgerðalaus hjá og horf­ir á hvernig þjóðinni blæðir á meðan hún fær­ir auðmagn­inu heilu pen­inga­hlöss­in á silf­urfati. Enn og aft­ur skal fórna þeim efnam­inni á alt­ari græðginn­ar.

Rík­is­stjórn­in tal­ar um að verja framúrsk­ar­andi lífs­kjör og kaup­mátt á meðan gjá­in á milli þeirra ríku og fá­tæku held­ur áfram að breikka og dýpka. Fá­tækt ís­lenskra barna hef­ur vaxið um heil 44% sl. sex ár. Öll út­gjöld heim­il­anna hafa auk­ist stjarn­fræðilega. Rík­is­stjórn­in reyn­ir að telja fá­tæku fólki trú um að það hafi það gott og hér drjúpi smjör af hverju strái. Því­lík ósann­indi, því­lík hræsni. Ef þetta er ekki van­hæf rík­is­stjorn þá er hún ekki til.

Ég gef bæði rík­is­stjórn­inni og fjár­mála­áætl­un henn­ar til næstu fjög­urra ára 0,0.

Höfundur er formaður Flokks fólksins




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×