Umfjöllun og viðtöl: Keflavík-ÍBV 1-3 | Eyjamenn unnu fyrsta útisigurinn

Jakob Snævar Ólafsson skrifar
Eyjamenn unnu góðan sigur gegn Keflavík.
Eyjamenn unnu góðan sigur gegn Keflavík. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík og ÍBV mættust í fjórðu umferð Bestu deildar karla á heimavelli Keflvíkinga á gervigrasvellinum við Nettó-höllina. Eftir markalausan fyrri hálfleik komust Keflvíkingar yfir 1-0 en Eyjamenn voru fljótir að svara fyrir sig og komust í 1-3 sem urðu lokatölur leiksins. ÍBV vann sinn annan sigur í röð í deildinni og lyfti sér upp í sjötta sæti með sex stig. Keflvíkingar sitja hins vegar enn í áttunda sæti með fjögur stig.

Fyrri hálfleikur var ansi bragðdaufur. Það vantaði talsvert upp á gæði í sendingum og báðum liðum gekk brösulega að skapa sér færi. Eyjamenn voru meira við stjórnvölin í leiknum en gekk illa að brjóta vörn Keflvíkinga á bak aftur. Gestirnir fengu engin góð færi. Keflvíkingar héldu sig nokkuð til baka og beittu skyndisóknum og fengu tvö færi.

Á 23. mínútu komst Sami Kamel inn fyrir vörn Eyjamanna en Jón Kristinn Elíasson, markvörður, kom vel út á móti og varði. Tæpum þrettán mínútum seinna fékk Sindri Snær Magnússon gott skotfæri í vítateig Eyjamanna sem náðu að bjarga í horn. Markalaust var því þegar fyrri hálfleik lauk.

Ásgeir Páll Magnússon, bakvörður Keflvíkinga, þurfti að fá skiptingu vegna meiðsla í hálfleik. Sóknarmaðurinn Jordan Smylie kom þá inn á. Þetta kallaði á stöðubreytingar í vörn Keflavíkur sem áttu eftir að hafa talsverðar afleiðingar.

Seinni hálfleikur var dauflegur framan af og mikið var um stöðubaráttu. Á 66. mínútu náðu Keflvíkingar góðum samleikskafla. Stefan Ljubicic kom boltanum út á hægri kantinn þar sem Jordan Smylie sendi fasta sendingu, meðfram jörðinni, inn í vítateig Eyjamanna. Þar var Sami Kamel mættur og setti boltann í netið með skoti sem Jón Kristinn réði ekki við. Keflavík var komið yfir 1-0.

Við þetta kviknaði loks á sóknarleik Eyjamanna sem skoruðu þrjú mörk á tæplega tíu mínútna kafla. Öll urðu þau til með svipuðum hætti. Á 70. mínútu fékk Felix Örn Friðriksson boltann á vinstri kantinum og gaf fyrir. Boltinn barst að lokum til Hermanns Þór Ragnarssonar sem var á auðum sjó og jafnaði. Felix endurtók leikinn á 74. mínútu og gaf á fjærstöngina á Sverri Pál Hjaltested sem gaf ekkert fyrir varnaleik Keflvíkinga og setti boltann í netið.

Felix fékk boltann á vinstri kantinum í þriðja sinn á 79. mínútu og í þetta sinn gaf hann á Oliver Heiðarsson sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir ÍBV. Oliver fékk nægt rými frá varnarmönnum Keflavíkur, sem gerðu klaufalegar tilraunir til að stöðva sendinguna, og skoraði með þægilegu skoti.

Keflavík sótti nokkuð það sem eftir var leiks en náði ekki að skapa sér teljandi færi til að jafna. Lokatölur urðu því 1-3 fyrir ÍBV.

Af hverju vann ÍBV?

Eftir að hafa lent undir kviknaði loksins ljós í sóknarleik Eyjamanna. Gestirnir sköpuðu sér engin alvöru færi fyrr en að Keflvíkingar komust yfir. Þá loks náðu þeir að dreifa vel úr sér og finna laus svæði á vallarhelmingi Keflvíkinga. Uppskriftin að öllum mörkunum var nokkuð svipuð. Með því að taka stjórnina á miðjunni og nýta vel krafta bakvarðarins Felix Arnar Friðrikssonar í sóknarleiknum náði ÍBV að snúa tapi í sigur.

Hverjir stóðu upp úr?

Felix Örn Friðriksson var aðalmaðurinn á bak við öll mörk ÍBV með sendingum fyrir mark Keflvíkinga. Hann stóð þar af leiðandi helst upp úr. Tómas Bent Magnússon var öflugur á miðjunni sem var nauðsynlegt fyrir ÍBV til að halda stjórn á leiknum. Annars var baráttan og vinnslan í Eyjamönnum almennt góð og það getur vel verið að þeir eigi eftir að koma á óvart í sumar ef þeir halda sínu hugarfari jafn öflugu og í þessum leik.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Keflvíkinga í öllum mörkum Eyjamanna var skelfilegur. Þeir náðu ekki að loka fyrir sendingar Felix Arnar og gerðu markaskorurunum allt of auðvelt fyrir. Lið ÍBV var þegar upp er staðið einfaldlega kraftmeira og virtist vera með hugarfar sem of marga leikmenn Keflavíkur skorti.

Hvað gerist næst?

Fimmta umferð fer fram um miðja næstu viku. ÍBV heimsækir Fram 3. maí en Keflavík fær það erfiða verkefni að mæta toppliði Víkings, í Víkinni, 4. maí.

„Við eigum samt að geta varist miklu betur“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson (t.h.), þjálfari Keflvíkinga.VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, fór ekki í grafgötur með að hann væri ekki sáttur við frammistöðu síns liðs í þessum leik.

„Fyrri hálfleikur var þannig hjá okkur að við reyndum að vera „solid“ varnarlega. Við fengum nokkur góð tækifæri til að komast yfir sem við nýttum ekki. Við komumst yfir í seinni hálfleik og eigum þannig lagað að geta siglt þessu í land en við erum gersamlega sofandi. Það koma hættulegar fyrirgjafir sem við hreinsuðum ekki nógu vel.“

„Við lendum í áfalli þegar Ásgeir Páll meiðist og þá þurftum við að riðla til. Nacho fer í bakvörðinn og Sindri Snær fer í miðvörðinn. Þá riðlaðist aðeins varnarleikurinn okkar. Við eigum samt að geta varist miklu betur en þetta og koma boltanum frá. Ég er bara óhress með þessi úrslit.“

Sigurður Ragnar á mikið verk fyrir höndum að bæta það sem aflaga fór hjá Keflavíkurliðinu í þessum leik áður en kemur að næstu viðureign við topplið Víkings.

„Það er margt sem við þurfum að laga. Við þurfum að fara vel yfir þennan leik og sjá hvað við getum gert betur. Það er aldrei allt slæmt þegar þú tapar en þetta var heldur ekki gott sem við sýndum í dag. Við eigum að geta gert betur og vitum það sjálfir. Það voru of margir leikmenn hjá okkur sem áttu slæman dag.“

Keflvíkingar eru meðal þeirra liða sem skorað hafa fæst mörk í deildinnni. Sigurður Ragnar taldi þó ekki skorta á að liðið næði að skapa sér nægilega mörg færi.

„Tölfræðin segir okkur það að í leikjunum hingað til í deildinni höfum við verið eitt af þeim liðum sem fær flest færi. Þannig að það hefur ekki verið vandamál að búa til færin en það hefur verið vandamál að skora.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira