Fótbolti

Forseti UEFA vill setja launaþak í evrópskum fótbolta

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aleksander Ceferin, forseti UEFA.
Aleksander Ceferin, forseti UEFA. Gualter Fatia - UEFA/UEFA via Getty Images

Aleksander Ceferin, forseti evrópska kanttspyrnusambandsins UEFA, vill koma á launaþaki í evrópskum fótbolta.

Laun knattspyrnumanna hafa oft verið á milli tannanna á fólki og launahæstu leikmenn Evrópu þéna allt að 17,5 milljarða króna á ári.

Ceferin segir að hann hafi nú þegar rætt um málið við framkvæmdarstjórn UEFA og bætir við að öll félög séu sammála breytingunni.

„Það kemur kannski á óvart, en það eru allir sammála þessu,“ sagði Ceferin í samtali við bandaríska miðilinn Men in Blazers.

„Stór félög, lítil félög, félög í eigu ríkja, félög í eigu milljarðamæringa. Það eru allir sammála um þetta.“

Gianni Infantino, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, viðraði einnig hugmyndina um launaþak fyrr á árinu og nú virðast álfusamböndin vera farin að taka í sama streng.

„Við þurfum að hugsa alvarlega um launaþak í framtíðinni. Ef laun rjúka upp úr öllu valdi verður gríðarlegt ójafnvægi í samkeppni milli félaga,“ sagði Ceferin.

„Þetta snýst ekki um eigendurna, heldur um samkeppnishæfni félaga. Ef að sömu fimm liðin vinna alltaf allt þá verður þetta tilgangslaust.“

„En þetta þarf að vera sameiginlegt átak milli allra deilda og UEFA. Ef þetta verður bara gert í nokkrum deildum og ekki öðrum þá virkar þetta ekki. Ég vona að það sé hægt að koma þessu á fót sem fyrst.“

„Eins og staðan er núna þá taka nýjar reglur gildi eftir 2024 þar sem lið geta mest eytt 70 prósent af tekjum sínum í launakostnað og leikmannakaup. En það er ekki nóg því ef tekjur félags eru fimm milljarðar evra þá er 70 prósent af því ansi mikið.“

„Þetta er framtíðin og ég er ekki hræddur um það að eigendur félaganna hafi of mikil völd. UEFA stjórnar evrópsku keppnunum og deildunum og við eigum mjög gott samstarf við evrópsku félagasamtökin,“ sagði Ceferin að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×