Erlent

Deildar meiningar um mögu­lega Nató-aðild Úkraínu­manna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stoltenberg vill Úkraínu í faðm Nató en Rússar alls ekki.
Stoltenberg vill Úkraínu í faðm Nató en Rússar alls ekki.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hefur ítrekað að Úkraína muni ganga í Nató. Þegar yfirstandandi átök taki enda verði að tryggja Úkraínumönnum fælingarmátt til að forða nýjum árásum.

Ummælin lét Stoltenberg falla fyrir fund fulltrúa bandamanna á Ramstein-flugvellinum í Þýskalandi. Fyrr í vikunni heimsótti framkvæmdastjórinn Vólódímír Selenskí Úkraínuforseta í Kænugarði og bauð honum á næsta fund Nató í Vilníus.

Stoltenberg sagði í febrúar síðastliðnum að aðildarríki Nató væru sammála um að Úkraína yrði aðili að bandalaginu en um langtíma markmið væri að ræða. Í bili þyrfti að tryggja að Úkraína færi með sigur í stríðinu sem nú geisaði, sem sjálfstæð og sjálfráða þjóð. 

Dmitry Peskov, talsmaður stjórnvalda í Moskvu, sagði hins vegar í gær að eitt helsta markmiðið með hinum „sérstöku hernaðaraðgerðum“ Rússa í Úkraínu væri að tryggja að Úkraína yrði ekki meðlimur Nató. Aðild Úkraínu yrði alvarleg ógn við öryggi Rússlands.

Finnar hafa þegar gengið í Nató í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og Svíar sótt um en mætt andstöðu stjórnvalda í Tyrklandi.

Danir og Hollendingar greindu frá því í gær að þeir myndu sjá Úkraínumönnum fyrir fjórtán Leopard-skriðdrekum til viðbótar, vonandi í ársbyrjun 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×