Erlent

Hand­teknir grunaðir um að reka kín­verska lög­reglu­stöð í New York

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Húsið fyrir miðja mynd er sagt hafa hýst útvarðastöðina.
Húsið fyrir miðja mynd er sagt hafa hýst útvarðastöðina. AP/Bebeto Matthews

Bandaríska alríkislögreglan handtók í dag tvo menn sem grunaðir eru um að vera útsendarar kínverska ríkisins, meðal annars með því að ógna kínverskum andófsmönnum í Bandaríkjunum. Mennirnir eru sagðir tengjast dularfullri kínverskri útvarðastöð í New York-borg, hvar þeir voru handteknir.

Frá þessu greinir New York Times og segir mennina tvo vera á sextugs- og sjötugsaldri.

Mennirnir eru sagðir hafa tengsl við kínverska útvarðastöð í Kínahverfi Manhattan í New York Borg. Stöðin sé ein hundrað slíkra um allan heim þar sem löggæslustarfi í nafni kínverskra stjórnvalda er sinnt á erlendri grundu, án dóms og laga.  

Mönnunum er gefið að sök að hafa nýtt útvarðastöðina til að ógna kínverskum andófsmönnum sem búsettir eru í Bandaríkjunum, fyrir hönd kínverska ríkisins. Í umfjöllun NYT er sagt frá því um sé að ræða í fyrsta sinn sem menn tengdir stöðvum sem þessari hafi verið ákærðir í sakamáli. Þá voru gögn tekin úr stöðinni og þau gerð upptæk.

Mennirnir tveir sem taldir eru hafa stjórnað stöðinni eru Lu Jianwang, 61 árs, og Chen Jinping, 59 ára, en þeir eru báðir bandarískir ríkisborgarar.

Haft er eftir háttsettum embættismönnum innan stjórnsýslunnar í Bandaríkjunum að kínverska ríkið notaði stöðvar, líkt og þessa sem er til umfjöllunar hér, til þess að stjórna umræðu um sig á erlendri grundu. Stjórnvöld á Írlandi, í Kanada og Hollandi hafa öll kallað eftir því við kínversk stjórnvöld að þau loki stöðvum sínum í löndunum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×