Um­fjöllun, við­töl og myndir: Valur – Stjarnan 0-0 | Garð­bæingar eru Meistarar meistaranna eftir sigur í víta­spyrnu­keppni

Kári Mímisson skrifar
Bikarinn á loft.
Bikarinn á loft. Vísir/Hulda Margrét

Leikið var í Meistarakeppni KSÍ, árlegum leik milli Íslandsmeistara og bikarmeistara. Leikurinn markar upphaf knattspyrnu sumarsins en Besta deild kvenna hefst á þriðjudaginn í næstu viku. Valur er ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar og því kom það í hlut Stjörnunnar, sem lenti í öðru sæti Bestu deildarinnar í fyrra, að leika leikinn. Staðan var markalaus þegar flautan gall og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar hafði Stjarnan betur og er því Meistari Meistaranna.

Fyrir leik höfðu samfélagsmiðlar logað eftir að ÍTF, hagsmunasamtök félaga í efstu deildum, ákvað að bjóða leikmönnum úr liðum í Bestu deild kvenna á fund til sín á sama tíma og leikurinn átti að fara fram. Þessu svöruðu fyrirliðar liðanna í Bestu deildinni með því að gefa út yfirlýsingu þar sem þær sögðust ekki ætla að mæta til fundar og hvöttu fólk til að mæta á leikinn í staðinn.

Það var fátt um tíðindi í fyrri hálfleiknum. Valskonur reyndu eins og þær gátu að þræða boltann inn fyrir vörn Stjörnunnar sem tókst í tvö skipti en hin margreynda Erin Mcleod í marki Stjörnunnar sá við þeim Ísabellu Söru og Ásdísi Karen. Stjörnustúlkur náðu ekki að skapa sér nein opin færi í fyrri hálfleik og virtist uppleggið fyrst og fremst vera skot fyrir utan teyg og sjá hvernig Fanney Inga í marki Vals myndi takast á við það.

Bryndís Arna fékk besta færi Vals.Vísir/Hulda Margrét

Hættulegasta færi fyrri hálfleiks kom hins vegar eftir mistök í vörn Stjörnunnar. Eyrún Embla sendi þá boltann beint í lappirnar á Bryndísi Örnu sem var fljót að átta sig og kom boltanum strax á Ásdísi Karen sem var í upplögðu færi en skot hennar endaði yfir markinu.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum. Leikurinn var mjög lokaður og fátt um góð færi. Þegar tæplega tíu mínútur voru eftir af leiknum fékk Bryndís Arna Níelsdóttir besta færi leiksins þegar Ísabella Sara reyndi að finna hana inni á teygnum. Anna María reyndi að komast fyrir sendingu hennar en boltinn endaði á því að skoppa fyrir Bryndísi sem setti hann yfir markið.

Ásdís Karen í leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Markalaust var eftir 90 mínúturnar og því var farið beint í vítaspyrnukeppni þar sem Stjarnan hafði betur. Þær Jasmín Erla, Aníta Ýr, Andrea Mist og Ólína Ágústsdóttir skoruðu allar fyrir Stjörnuna. 

Hjá Val skoruðu Bryndís Anna, Anna Rakel og Málfríður Erna. Fyrirliðinn Elísa Viðarsdóttir skaut framhjá og það var svo Erin McLeod sem varði síðustu spyrnuna frá Ásdísi Karen og tryggði Stjörnunni sigur í Meistarakeppni KSÍ og Svanfríðarbikarinn.

Bikar á loft.Vísir/Hulda Margrét
Bikarinn á lofti.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Stjarnan?

Valur fékk sín færi en tókst ekki að nýta þau. Það eru tuttugu og tveggja ára aldursmunur á þeim Erin McLeod og Fanneyju Ingu Birkisdóttur, markvörðum liðanna og ætli reynslan hennar hafi ekki bara skilað þessu í hús fyrir gestina úr Garðabæ.

Hverjar voru bestar?

Erin McLeod verður að fá þetta. Hún var mjög örugg í öllum sínum aðgerðum og varði nokkrum sinnum vel frá Valskonum. Kórónaði svo daginn sinn með því að verja loka vítið.

Erin í leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Hvað mátti betur fara?

Það var ákveðinn vorbragur yfir þessum leik og margt sem mætti betur fara. Valur fékk nokkur góð færi og gat klárað þetta í venjulegum leiktíma. Valur var líklega betra liðið hér í kvöld en svona er boltinn, brellinn og brögðóttur.

Úr leik kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

Hvað gerist næst?

Besta deild kvenna hefst þriðjudaginn í næstu viku. Það verður risaleikur hér á Hlíðarenda í fyrstu umferð þegar Valur mætir Breiðablik. Leikurinn hefst klukkan 19:15 þriðjudaginn 25. apríl. Stjarnan fær hins vegar Þór/KA í heimsókn miðvikudaginn 26. apríl klukkan 18:00.

Búin að vera meiðsli hjá okkur í vetur og við búin að upplifa ýmislegt

Matthías Guðmundsson mætti í viðtal eftir leik þar sem Pétur Pétursson var heima veikur.Vísir/Tjörvi Týr

„Alltaf svekkjandi að tapa en það voru jákvæðir hlutir hjá okkur sem ég tek alveg út úr þessu. Mér fannst við ofan á í leiknum, fengum betri færi og hefði viljað klára þetta á fyrstu 90 mínútunum, “ sagði Matthías Guðmundsson, einn af þjálfurum Vals, strax eftir leik.

Það var nokkur spenna að sjá hver myndi verja mark Vals í leiknum. Það kom í hlut hinnar efnilegu Fanneyjar Ingu Birkisdóttur sem hafði spilað mest af undirbúningstímabilinu. Fyrr í mánuðinum hafði þó Valur náð sér í tvo aðra markverði í þeim Birtu Guðlaugsdóttur og Kelly Rowswell. Má reikna með að Fanney verði fyrsti möguleikinn ykkar í sumar?

„Það er bara samkeppni. Fanney er frábær markvörður en þær þrjár berjast um þessa stöðu og þurfa bara að taka á því á hverri einustu æfingu og svo þurfum við bara að sjá hvernig það endar.“

„Elísa er að koma til baka núna og alveg að detta inn. Það eru búin að vera meiðsli hjá okkur í vetur og við búin að upplifa ýmislegt en þetta lítur svona allt í lagi út núna.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira