Fótbolti

Meiðsli Martínez líta ekki vel út en hásinin óslitin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lisandro Martínez var miður sín þegar honum var hjálpað af velli í gær.
Lisandro Martínez var miður sín þegar honum var hjálpað af velli í gær. getty/Matthew Ashton

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að meiðsli Lisandros Martínez líti ekki vel út. Hann er þó ekki með slitna hásin.

Martínez meiddist þegar fjórar mínútur voru eftir af leik United og Sevilla í Evrópudeildinni í gær, í stöðunni 2-1. Ten Hag var búinn að nota allar fimm skiptingarnar sínar og United kláraði leikinn því manni færri. Harry Maguire skoraði sjálfsmark í uppbótartíma og leiknum lauk því með 2-2 jafntefli.

„Það var enginn mótherji þarna. Við verðum að sjá hvað setur,“ sagði Ten Hag um meiðsli Martínez. Hann sagði þó að hann væri ekki með slitna hásin.

United og Sevilla mætast öðru sinni á Spáni á fimmtudaginn í næstu viku. United verður ekki einungis án Martínez í leiknum heldur einnig Brunos Fernandes sem verður í leikbanni.

Martínez kom til United frá Ajax fyrir tímabilið. Hann varð heimsmeistari með Argentínu í lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×