Erlent

Banda­ríkja­mönnum þótti Guter­res of viljugur til að draga taum Rússa

Gunnar Reynir Valþórsson og Hólmfríður Gísladóttir skrifa
Embættismenn innan SÞ segja afstöðu Guterres til átakanna í Úkraínu hafa verið alveg skýra.
Embættismenn innan SÞ segja afstöðu Guterres til átakanna í Úkraínu hafa verið alveg skýra. epa

Leyniskjöl úr gagnalekanum hjá yfirvöldum í Bandaríkjunum halda áfram að valda fjaðrafoki en BBC hefur gögn undir höndum sem virðast benda til þess að ráðamenn í Washington hafi fylgst afar náið með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Antonio Guterres.

Nokkur skjalanna lýsa einkasamtölum Guterres við aðstoðarmann sinn og svo virðist sem Bandaríkjamönnum finnist Guterres of viljugur til að draga taum Rússa og koma til móts við þeirra sjónarmið í tengslum við stríðið í Úkraínu. 

Þannig fjallar eitt skjalið um aðkomu Guterres að Svartahafs-kornsamningunum svokölluðu, þegar Úkraínumönnum var leyft að flytja korn úr landi um Svartahaf. Þar fannst Bandaríkjamönnum Guterres ganga of langt í að koma til móts við kröfur Rússa í því skyni að tryggja að samningurinn myndi ganga eftir. 

Er hann sagður hafa lagt áherslu á að auðvelda Rússum útflutning, jafnvel þótt það þýddi að aðgerðir til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem sættu refsiaðgerðum. Þannig hefði Guterres hreinlega grafið undan aðgerðum vestrænna ríkja sem ætlað er að draga Rússa til ábyrgðar vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Embættismenn hjá Sameinuðu þjóðunum hafa mótmælt ásökununum og sagt að allar aðgerðir SÞ hefðu miðað að því að draga úr áhrifum átakanna í Úkraínu á fátæka. Það þýddi að gera allt til að draga úr hækkun matvælaverðs.

Þá hefur BBC eftir embættismönnunum að afstaða Guterres til átakanna hafi alltaf verið mjög skýr.

Í skjölunum er einnig lýst samtali Guterres við aðstoðarmann sinn, Aminu Mohammed. Í því er Guterres sagður hafa lýst vanþóknun sinni á áköllum Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, eftir aukinni vopna- og skotfæraframleiðslu í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×