Erlent

Stroku­kengúra hoppar laus um Jót­land

Árni Sæberg skrifar
Kengúran er nánar tiltekið rauðhálsafía, eða svokölluð Bennets-kengúra.
Kengúran er nánar tiltekið rauðhálsafía, eða svokölluð Bennets-kengúra. Sanka Vidanagama/Getty

Kengúra sem slapp úr Glad-dýragarðinum í Lintrup á Jótlandi á miðvikudag hoppar enn laus um nágrenni Lintrup. Forstjóri dýragarðsins hefur hvatt fólk til þess að hafa augun opin og hringja strax í dýragarðinn eða neyðarlínuna sjái það til strokudýrsins.

Síðan á miðvikudaginn hefur Dennis Jensen, forstjóri dýragarðsins, leitað kengúrunnar logandi ljósi en leit hefur ekki enn borið árangur. Þó hefur sést til kengúrunnar nokkrum sinnum síðan hún slapp úr garðinum.

„Mér líður eins og ég sé að elta draugakengúru,“ hefur sjónvarpsstöðin Syd TV eftir honum.

Ökumenn hafa komið auga á kengúrunna og tilkynnt það en hún hefur alltaf náð að hoppa á brott áður en Jensen hefur komið sér á staðinn ásamt dýralækni. Hann vonast til þess að geta svæft kengúruna og flutt hana aftur í dýragarðinn. Hann óttast þó að skjóta þurfi dýrið ef það veldur hættu á vegum. Því hvetur hann fólk til þess að hringja strax sjái það til kengúrunnar.

„Það er ekki möguleiki að hlaupa jafnhratt og hún, svo það er ekki ráðlegt að reyna að fanga hana sjálfur. Best er að fylgjast með dýrinu og halda sér í hæfilegri fjarlægð frá því,“ er haft eftir honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×