Viðskipti innlent

Arion viður­kennir brot og greiðir tugi milljóna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arion banki þarf að greiða áttatíu milljónir króna í sekt.
Arion banki þarf að greiða áttatíu milljónir króna í sekt. Vísir/Vilhelm

Arion banki hefur viðurkennt brot sín á banni við uppgreiðslugjöldum á lánum til lítilla fyrirtækja. Forsvarsmenn bankans sýndu ríkan samstarfsvilja á meðan rannsókn Samkeppniseftirlitsins á málinu stóð yfir og hafði það verulega þýðingu við mat á fjárhæð sekta. 

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins. Forsagan er sú að árið 2017 gerði bankinn sátt við eftirlitið vegna rannsóknar sem hófst í tilefni af kvörtunum smærri keppinautar. Í þeirri sátt var bankanum gert að ráðast í aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki. 

Ein grein sáttarinnar kveður á um að lagt yrði bann við uppgreiðslugjöldum á lánum til einstaklinga og lítilla fyrirtækja sem bera breytilega vexti. Við eftirfylgni Samkeppniseftirlitsins vegna sáttarinnar vöknuðu grunsemdir um að framkvæmd bankans samkvæmt þessu skilyrði væri ábótavant. Hóf Samkeppniseftirlitið því athugun á þessu í ágúst á síðasta ári. 

Niðurstaða þeirrar athugunar er að bankinn viðurkennir að hafa brotið gegn banninu. Bankinn hafði í níu lánasamningum sem bera breytilega vexti kveðið á um uppgreiðslugjald eða ígildi þess. Þá innheimti bankinn gjaldið í einu af þessum tilvikum. 

Er því Arion banka gert að greiða áttatíu milljónir króna í sekt. Hafði það verulega þýðingu við mat á fjárhæð sekta að Arion banki sýndi ríkan samstarfsvilja og stytti það rannsókn og málsmeðferð Samkeppniseftirlitsins.

Bankinn hefur farið yfir alla lánaferla sína og m.a. uppfært skjalgerðarferla, komið á sjálfvirkri vöktun vegna skráningar í útlánakerfi bankans og aukið fræðslu fyrir starfsfólk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×