Erlent

Kynnti á­höfnina sem á að fara aftur til tunglsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Geimfararnir fjórir við kynninguna í Houston í gær. Frá vinstri: Jeremy Hansen, Victor Glover, Reid Wiseman og Christina Hammock Koch.
Geimfararnir fjórir við kynninguna í Houston í gær. Frá vinstri: Jeremy Hansen, Victor Glover, Reid Wiseman og Christina Hammock Koch. AP/MIchael Wyke

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA kynnti í gær geimfarana fjóra sem urðu fyrir valinu til að fljúga til tunglsins á næsta ári. Kona og blökkumaður eru í fyrsta skipti á hópi væntanlegra tunglfara.

Til stendur að skjóta fjórum geimförum með Orion-geimferju NASA til tunglsins í fyrsta lagi seint á næsta ári. Í þessari fyrstu mönnuðu ferð Artemis-áætlunarinnar svonefndu er ætlunin að geimfararnir fljúgi geimferju sinni í kringum tunglið og aftur til jarðar án þess að reyna lending eða að fara á sporbraut um tunglið.

Geimfararnir fjórir voru kynntir við hátíðlega athöfn í Houston í Bandaríkjunum í gær. Þrír Bandaríkjamenn og einn Kanadamaður urðu fyrir valinu. Þau eru öll á fimmtugsaldri og voru valin úr hópi 41 starfandi geimfara.

Stjórnandi leiðangursins verður Reid Wiseman en með honum skipa áhöfnina þau Victor Glover, flugmaður sjóhersins og fyrsti blökkumaðurinn til að vera valinn í tunglferð, Christina Koch, sem á metið yfir lengstu samfelldu dvöl konu í geimnum, og Jeremy Hansen, fyrrverandi orrustuflugmaður frá Kanada. Hansen er sá eini þeirra sem hefur aldrei farið út í geim.

Hansen er jafnframt fyrsti væntanlegi tunglfarinn sem er ekki frá Bandaríkjunum. Kanadíska geimstofnunin fékk sæti í leiðangrinum vegna framlags síns til geimskutluáætlunar NASA og Alþjóðlegu geimstöðvarinnar.

Fjórmenningarnir verða fyrstu mennirnir sem fara til tunglsins frá Apollo 17-leiðangrinum árið 1972. Tólf bandarískir karlmenn stigu fæti á tunglið í Apollo-ferðunum.

Mynd NASA af tunglförunum fjórum: Koch, Glover, Wiseman og Hansen.AP/NASA/Josh Valcarcel



Fleiri fréttir

Sjá meira


×