Enski boltinn

Leicester hafði strax sam­band við Potter

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Graham Potter er atvinnulaus.
Graham Potter er atvinnulaus. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Leicester City rak Brendan Rodgers úr starfi sem þjálfari liðsins eftir tap gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á laugardag. Graham Potter var rekinn degi síðar úr starfi þjálfari Chelsea og hafði Leicester City strax samband.

Talksport greinir frá því að Leicester hafi samstundis sett sig í samband við Potter eftir að hann var rekinn frá Chelsea. Þjálfarinn hafði hins vegar ekki mikinn áhuga á því að taka við Refunum sem eru nú í bullandi fallbaráttu.

Eftir að hafa yfirgefið Brighton & Hove Albion fyrr á leiktíðinni til að taka við Chelsea virðist sem hinn 47 ára gamli Potter ætli að sér pásu frá þjálfun um stundarsakir.

Síðasti leikur Chelsea undir stjórn Potter var 0-2 tap á heimavelli gegn Aston Villa. Liðið mætir Liverpool á morgun, þriðjudag, og mun Bruno Saltor – aðstoðarþjálfari liðsins – stýra Chelsea í þeim leik.

Talið er að forráðamenn Chelsea vilji fá Julian Nagelsmann, fyrrverandi þjálfara Bayern München til að taka við stjórnartaumunum á Brúnni. Þá hefur Mauricio Pochettino verið nefndur til sögunnar en sá stýrði Tottenham Hotspur lengi vel.

Ekki kemur fram á vef Talksport hver er líklegastur til að taka við Leicester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×