Innlent

Byrjað verði að byggja yfir rústirnar í Stöng í Þjór­sár­dal í sumar

Atli Ísleifsson skrifar
Yfirbyggingin á að líta svona út samkvæmt teikningum Sp(r)int Studio
Yfirbyggingin á að líta svona út samkvæmt teikningum Sp(r)int Studio SP(R)INT STUDIO

Framkvæmdasýslan Ríkiseignir hafa birt auglýsingu um útboð framkvæmda við bæjarrústir Stangar í Þjórsárdal og er vonast til að hægt verði að hefja framkvæmdir í sumar.

Á vef stofnunarinnar segir að SP(R)INT Studio hafi hannað nýja yfirbyggingu yfir bæjarrústirnar.

„Yfirbygging sem reist var yfir rústirnar hefur látið verulega á sjá og því tímabært að færa aðstöðuna við rústirnar í nútímahorf. Að framkvæmdum loknum verður aðstaða á þessum vinsæla ferðamannstað eins og best verður á kosið,“ segir á vef Framkvæmdasýslunnar. 

SP(R)INT STUDIO

Á vef Þjóðveldisbæjarins segir að á 11. öld hafi verið blómleg byggð í Þjórsárdal þar sem byggðin hafi dreifst á um tuttugu bæi og býli. Þar bjuggu á þeim tíma milli 400 og 600 einstaklingar. Árið 1104 steyptist hins vegar svartnættið yfir þegar gos hófst í Heklu og íbúar flúðu undan gjóskufalli.

800 árum síðar hafi svo hópur norrænna fornleifafræðinga grafið upp rústir nokkurra bæja í dalnum undan þykku lagi af vikri. Þar á meðal var Stöng sem var eitt af stórbýlum Íslands á þeim tíma.

SP(R)INT STUDIO

Verkefnið Stöng í Þjórsárdal er á vegum Minjastofnunar Íslands enda svæðið friðlýst sem menningarlandslag. Það er fjármagnað af Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×