Fótbolti

Rodri brjálaður út í Skota: „Þetta er ekki fótbolti“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rodri var verulega pirraður eftir tapið á Hampden Park í Glasgow.
Rodri var verulega pirraður eftir tapið á Hampden Park í Glasgow. getty/Craig Williamson

Rodri var æfur eftir tap Spánverja fyrir Skotum í undankeppni EM 2024 í gær og gagnrýndi leikstíl þeirra skosku harðlega.

Scott McTominay skoraði bæði mörk Skotlands í 2-0 sigri á Spáni á Hampden Park. Skotar hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í undankeppni EM.

Spánverjar eru aftur á móti bara með þrjú stig og Rodri, sem var fyrirliði spænska liðsins í gær, jós úr skálum reiði sinnar eftir leikinn gegn Skotlandi.

„Fyrir mér er þetta allt rusl því þeir eru alltaf að tefja. Þeir ögra þér og láta sig detta. Þetta er ekki fótbolti. Dómarinn tekur þátt í þessu og segir ekkert,“ sagði Manchester City-maðurinn.

„Þetta er svekkjandi því við viljum vinna en þeir tefja. Þeir hafa sín vopn og við lærum af þessu. Við berjumst alltaf en þetta snýst ekki um baráttu. Þetta snýst um að tefja tímann; fjórir til fimm leikmenn lágu í grasinu,“ bætti Rodri við. Hann lék sinn fertugasta landsleik í gær.

Í júní spilar Spánn við Ítalíu í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar. Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Holland og Króatía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×