Erlent

Selenskí sagður uggandi vegna for­seta­kosninganna vestan­hafs

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Selenskí greindi frá því í viðtalinu að hluti af þeim búnaði sem bandamenn hefðu sent Úkraínu hefði ekki virkað.
Selenskí greindi frá því í viðtalinu að hluti af þeim búnaði sem bandamenn hefðu sent Úkraínu hefði ekki virkað. epa/Hollie Adams

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti hefur áhyggjur af því að mögulegar breytingar á hinu pólitíska landslagi Vestanhafs muni hafa áhrif á gang stríðsins í Úkraínu. „Bandaríki skilja að ef þeir hætta að aðstoða okkur þá vinnum við ekki,“ sagði forsetinn í viðtali við AP.

Í frétt AP segir að Selenskí sé meðvitaður um að árangur Úkraínu á vígvellinum megi að stórum hluta rekja til alþjóðlegs hernaðarlegs stuðings, sérstaklega frá Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu. 

Sumir í Bandaríkjunum, þeirra á meðal Donald Trump, hafi hins vegar varpað fram þeirri spurningu hvort stjórnvöld þar í landi ættu að vera að veita milljörðum dollara í aðstoð til handa Úkraínumönnum.

Selenskí sagði um Vladimir Pútín Rússlandsforseta að hann væri einangraður og væri ekki að fá allar upplýsingar og að hann hefði „tapað öllu“ á liðnu ári.

„Hann á enga bandamenn,“ sagði Selenskí.

Forsetinn sagði að þrátt fyrir heimsókn Xi Jinping, forseta Kína, til Moskvu á dögunum væri ljóst að Rússar nytu ekki lengur stuðnings Kínverja. Sagði hann yfirlýsingar Pútín um flutning kjarnorkuvopna til Belarús til marks um að heimsókn Xi hefði ekki farið eins og vonir stóðu til.

Selenskí sagði enn fremur að þrátt fyrir stórkarlalegar yfirlýsingar manna á borð við Dmitry Medvedev, fyrrverandi Rússlandsforseta, um notkun kjarnorkuvopna hefði hann ekki trú á því að Rússar væru raunverulega reiðubúnir til að taka það skref.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×