Erlent

Á­kæran felld niður og Roiland gagn­rýnir slaufunar­­menningu

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Justin Roiland tjáði sig um málið á Twitter og fagnaði réttlætinu.
Justin Roiland tjáði sig um málið á Twitter og fagnaði réttlætinu. Getty/Boddi

Ákæra á hendur Justin Roilands, sem er maðurinn á bak við þættina Rick and Morty, hefur verið felld niður. Roiland var nýverið ákærður fyrir heimilisofbeldi. 

Talsmaður héraðssaksóknara í Orange County í Kaliforníu í Bandaríkjunum segir að ákæran hafi verið látin niður falla vegna skorts á sönnunargögnum. AP fréttaveitan greinir frá.

Konan sem var áður í sambandi með Roiland kærði hann árið 2020 fyrir meint heimilisofbeldi. Hann var handtekinn í ágúst sama ár en sleppt gegn tryggingu. Konan fékk nálgunarbann á hendur honum, en hann hefur ávallt neitað ásökununum. Málið velktist innan dómskerfisins í nokkurn tíma og var hann formlega ákærður í janúar á þessu ári.

Flestöll fyrirtæki, þar á meðal Adult Swim sem framleiddi Rick and Morty þættina, ráku Roiland í kjölfar ákærunnar. Streymisveitan Hulu gerði slíkt hið sama en Roiland vann að gerð tveggja þátta, Solar Opposites og Koala Man.

Justin Roiland tjáði sig um málið á Twitter í gær. Hann sagðist ávallt hafa vitað að ásakanirnar væru lygi, og sagðist aldrei hafa efast um að sannleikurinn kæmi í ljós. Roiland segist ætla að halda áfram að sinna skapandi verkefnum og byggja upp mannorð sitt að nýju.

„Ég er þakklátur fyrir að ákæran hafi verið látin niður falla en á sama tíma er ég sleginn yfir hræðilegu lygasögunum sem upp komu á yfirborðið á meðan þessu stóð. Ég er fyrst og fremst vonsvikinn út í þá sem stukku til og dæmdu mig, án þess að vita hið sanna, og það einungis byggt á orðum bitrar fyrrverandi kærustu, sem hafði það eina markmið að láta slaufa mér. Það, að það hafi gengið eftir – og jafnvel aðeins að hluta – er skammarlegt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×