Innlent

„Þetta er óskiljanleg ráðstöfun“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Jónína Kárdal, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa.
Jónína Kárdal, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa. Mynd/Aðsend

Formaður Félags náms- og starfsráðgjafa segir veigamikið verkfæri tekið úr sambandi með lokun upplýsinga og ráðgjafavefsins Næsta skref. Ráðgjafar séu bæði ósáttir og undrandi þar sem vefurinn hafi verið mikið notaður og fallið vel í kramið. Stjórnvöld þurfi að koma að málinu, finna stað fyrir vefinn og tryggja fjármagn en arðsemi vefsins sé ekki mældur í peningum.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins greindi frá því í gær að upplýsinga- og ráðgjafavefnum Næsta skref yrði lokað þann fyrsta apríl næstkomandi vegna aukins kostnaðar við rekstur, viðhald og þróun. Fram kom í tilkynningu að þau hafi leitað allra leiða til að halda rekstrinum áfram en það hafi ekki borið árangur. 

Jónína Kárdal, formaður Félags náms- og starfsráðgjafa, segir það mikil vonbrigði að verið sé að taka úr sambandi veigamikið verkfæri sem notað er í náms- og starfsfræðslu í grunnskólum og framhaldsskólum. Við þann gjörning að loka vefnum sé það eins og að ganga kortlaus upp á Kjöl án þess að hafa neinn vegvísi eða áttavita, að sögn Jónínu. 

Nauðsynlegt sé að einstaklingar sem séu að huga að sínum næstu skrefum hafi aðgengi að hlutlausum gæðaupplýsingum.

„Þessi vefur gegnir mjög veigamiklu hlutverki í allri upplýsingagjöf er varðar nám og störf og eins og sést á umferðinni á vefnum þá er hann mjög mikið notaður af almenningi og náms- og starfsráðgjöfum. Bara frá því í gær þegar þessi tilkynning barst og hún fór um ráðgjafaheima okkar þá hafa viðbrögðin verið gífurleg,“ segir Jónína. 

Þá sé þetta mjög óheppileg tímasetning. 

„Það skýtur skökku við að vefinum verði lokað, að hann geti ekki haldið áfram starfsemi á þessum tímapunkti. Nú er komið að innritun í framhaldsskólum og verðandi stúdentar að hugsa um sín næstu skref. Vefurinn Næsta skref lék til að mynda ákveðið hlutverk í kringum viðburðinn Mín framtíð,“ segir Jónína og vísar til viðburðar á dögunum sem var samvinnuverkefni menntamálayfirvalda og atvinnulífsins um kynningu iðn- og verknáms.  

Sýnt var frá viðburðinum í kvöldfréttum Stöðvar 2 um helgina. 

Notendum fjölgað samhliða breytingum á vefnum

Arnar Þorsteinsson, umsjónarmaður og ritstjóri vefsins, segir að unnið hafi verið að þróun vefsins frá 2012 sem hluta af IPA styrktu verkefni sem Fræðslumiðstöð atvinnulífsins stýrði. Vefurinn fór fyrst í loftið árið 2014 en vinna við hann lá niðri um tíma og í kringum árið 2018 leit vefurinn í núverandi mynd dagsins ljós.

„Þetta hefur breyst mikið frá þeim tíma. Við erum með á bilinu 60 til 70 þúsund notendur á ári í dag, getum við sagt. Þeir voru um 20 þúsund árið 2018 þannig þetta hefur aukist mjög mikið á þessum fjórum árum samhliða því að við höfum ráðist í miklar breytingar á vefnum,“ segir Arnar.

Nýjum notendum fjölgaði um rúmlega sex prósent milli 2021 og 2022, heimsóknir voru um 83 þúsund og síðuflettingar 300 þúsund.

„Betri fréttirnar eru kannski þær að við erum með um tvö til þrjú þúsund notendur á ári sem að skoða meira en tuttugu síður í hverri heimsókn. Það segir manni að það er verið að nota vefinn af einhverri alvöru,“ segir Arnar.

Mikil synd ef vefnum verður lokað

Að sögn Arnars má finna sambærilega vefi víða í OECD löndunum þar sem finna má upplýsingar og almennar lýsingar á störfum og tengingar við ýmsar námsleiðir. Með lokun Næsta skrefs verði aftur á móti enginn alhliða upplýsingavefur til staðar hér á landi, sem sé stórt skref aftur á bak.

„Það kostar auðvitað að halda svona vef úti og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur staðið ein að því á undanförnum tveimur árum, sem var nú kannski aldrei hugmyndin. Undanfarin tvö ár hefur hann verið rekinn til þriggja mánaða í senn og það er bara komið að sársaukamörkum með það held ég,“ segir Arnar.

Hann segist skilur ákvörðunina að ákveðnu leyti en það sé engu að síður sorglegt að sjá eftir vefnum.

„Vefhönnuðurinn sem að vinnur þetta með okkur er nýbúinn að teikna upp hugmynd að næstu stóru uppfærslu og ég var að skoða það núna bara í síðustu viku. Möguleikarnir sem við erum með þarna eru gríðarlegir og mikil synd ef það verður af þessari lokun, að mínu mati,“ segir Arnar.

Afturför í upplýsingagjöf sem stjórnvöld þurfi að bregðast við

Í tilkynningu frá Fræðslumiðstöðinni voru stjórnvöld hvött til að tryggja að réttar og viðeigandi upplýsingar um nám og störf væru áfram tryggðar og til staðar fyrir nemendur, foreldra og ráðgjafa. Það væri hægt annað hvort með áframhaldandi rekstri og þróun núverandi vefs eða með sambærilegum leiðum. 

Jónína segir náms- og starfsráðgjafa bæði ósátta og undrandi yfir ákvörðuninni en svo virðist sem að Fræðslumiðstöðin hafi verið sett út í ákveðið horn. 

„Ég tel mig vita það að Fræðslumiðstöðin hafi leitað allra leiða til að finna einhverja lausn, til að vera í samtali við stjórnvöld og greinilega hefur þeim ekki orðið ágengt í því,“ segir hún.

Um sé að ræða málefni sem snerti þrjú ráðuneyti, það eru mennta- og barnamálaráðuneytið, félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið. Þau þurfi að bregðast við sem fyrst. 

„Þetta er óskiljanleg ráðstöfun vegna þess að hún hefur miklar afleiðingar að mati okkar náms og starfsráðgjafa, þetta er afturför í upplýsingaráðgjöf, og æðri stjórnvöld, þessi þrjú ráðuneyti, ættu að geta unnið með einhverjum hætti þverfaglega til þess að finna vefnum stað og tryggja fjármagn,“ segir Jónína. 

„Arðsemi þessa vefs er ekki endilega mældur í peningum en hann stuðlar að því að fólk taki farsæla ákvörðun og finni sig í sínum náms- og starfsferli,“ segir hún. „Það fjármagn sem lagt er í þetta verkefni hefur skilað sér og mun skila sér margfalt til baka.“ 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×