Erlent

Þrí­vídd­ar­prent­uð eld­flaug á loft í fyrst­a sinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Relativity

Starfsmönnum fyrirtækisins Relativity Space tókst loks í nótt að skjóta fyrstu þrívíddarprentuðu eldflauginni á loft. Tvær fyrri tilraunir höfðu misheppnast en bilun á efra stigi eldflaugarinnar leiddi til þess að hún komst ekki á braut um jörðu.

Eldflaugin er af gerðinni Terran 1, og kallast GLHF eða „Good Luck, Have Fun“. Hún bar engan farm í geimskotinu, enda var um tilraunaskot að ræða. Henni var skotið á loft frá Flórída í nótt.

Eldflaugin er talin vera stærsti málmhlutur sem hefur verið þrívíddarprentaður en hún er rúmlega 33 metra há. eldflaugin brennir einnig metan, sem er ekki hefðbundið.

Um 85 prósent allrar eldflaugarinnar er þrívíddarprentaður en markmið starfsmanna Relativity Space er að eldflaugar framtíðarinnar verði 95 prósent þrívíddarprentaðar og alfarið endurnýtanlegar.

Áhugasamir geta séð geimskotið í spilaranum hér að neðan.

Samkvæmt SpaceFlightNow kviknaði ekki almennilega á efra stigi eldflaugarinnar og komst hún þess vegna ekki á braut um jörðu. Hún náði þó út í geim í skamman tíma, áður en hún féll aftur til jarðar.

Markmið forsvarsmanna Relativity Space er meðal annars að gera Terran 1 að ódýrum kosti fyrir uppsetningu gervihnattaþyrpinga. Eldflaugarnar eiga að geta borið 1.250 kíló á sporbraut í allt að 185 kílómetra hæð.

Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir hvernig eldflaugin er prentuð.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×