Innlent

Óskar eftir skýringum frá ráðu­neyti Bjarna

Bjarki Sigurðsson skrifar
Skúli Magnússon er umboðsmaður Alþingis.
Skúli Magnússon er umboðsmaður Alþingis. Vísir/Arnar

Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir skýringum fjármála- og efnahagsráðuneytisins á fullyrðingum um að ólöglegt sé að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber. 

Frá þessu er greint á vef umboðsmanns. Er tilefnið tilkynning frá ráðuneytinu frá 9. mars þar sem áréttuð eru nokkur atriði vegna umfjöllunar um félagið Lindarhvol. Vísar ráðuneytið til nokkurra úrskurða úrskurðarnefndar um upplýsingamál til merkis um að nefndin hafi úrskurðað um þetta atriði mörgum sinni. 

Þá kemur fram í tilkynningu ráðuneytisins að það telji sér skylt að hlíta úrskurðum nefndarinnar og vilji eða afstaða ráðherra, Bjarna Benediktssonar, og ráðuneytisins skipti engu máli í því samhengi. 

„Í ljósi þessa óskar umboðsmaður í fyrsta lagi eftir upplýsingum um hvort í tilkynningunni hafi verið átt við að birting vinnuskjala ríkisendurskoðanda sé almennt óheimil eða hvort vísað hafi verið til þess skjals fyrrverandi setts ríkisendurskoðanda sem vikið var að í tilkynningunni,“ segir í fyrirspurn umboðsmanns. 

Óskað er eftir skýringum á þeim lagasjónarmiðum sem búa að baki að afstöðu ráðuneytisins. Þá er að lokum óskað eftir því að ráðuneytið skýri nánar hvernig niðurstaða úrskurðarnefndar upplýsingamála á þá leið að stjórnvaldi sé heimilt að synja beiðni um aðgang að gögnum geti ein og óstudd leitt til þess að stjórnvaldi sé skylt að synja slíku erindi. 

Ráðuneytið hefur til 5. apríl næstkomandi til þess að senda umboðsmanni svör. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×