Enski boltinn

Totten­ham neitar að selja Kane næsta sumar og gæti misst hann frítt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hvað gerir Kane í sumar?
Hvað gerir Kane í sumar? Getty Images/Richard Sellers

Þegar félagaskiptaglugginn á Englandi opnar í sumar verður aðeins ár þangað til samningur framherjans Harry Kane við enska úrvalsdeildarfélagið Tottenham Hotspur rennur út. Hann virðist ekki vera á leiðinni að skrifa undir nýjan samning en það breytir því ekki að Tottenham hefur engan áhuga á að selja sinn besta mann.

Talið er að fjöldi liða muni horfa hýru auga til Kane í sumar. Hann fagnar þrítugs afmæli sínu þann 28. júlí næstkomandi og verður því þann mund að verða 31 árs þegar samningur hans rennur út sumarið 2024.

Manchester United hefur lengi vel horft á Kane sem manninn sem getur leidd sóknarlínu liðsins. Hvort Kane sé sama sinnis er annað mál en það er ljóst að Man United getur borgað honum mun hærri laun en Tottenham og þá hefur félagið gert nokkuð nýverið sem Tottenham Kane hefur ekki enn gert á ferli sínum, unnið titil.

Sky Sports greinir frá því að Kane sé líklega númer eitt á innkaupalista Man United næsta sumar en félagið þarf þó að standast fjárhagsreglur og því er ekki víst hversu miklu það getur eytt. Það þarf hins vegar nýjan framherja þar sem Wout Weghorst er aðeins á láni og Anthony Martial er einfaldlega meira á nuddbekknum í inniskóm heldur en út á grasi í takkaskóm.

Ásamt Kane þá eru Victor Osimhen [Napoli], Gonçalo Ramos [Benfica], Lautaro Martínez [Inter Milan], Dušan Vlahović [Juventus] og Mohammed Kudus [Ajax].

Hvað Kane varðar, ef hann skrifar ekki undir nýjan samning þá getur hann samið við lið utan Englands í janúar á næsta ári. Það er eitthvað sem ríkjandi Þýskalandsmeistarar Bayern München vonast til að gerist.

Jamie Carragher, sparkspekingur Sky Sports og fyrrverandi leikmaður Liverpool sem og enska landsliðsins, segir að Man United sé eini raunhæfi möguleikinn fyrir Kane á Englandi fari hann frá Tottenham.

Harry Kane hefur skorað 203 mörk í ensku úrvalsdeildinni.Michael Regan/Getty Images

„Ég vill ekki sjá hann hjá Man United, af augljósum ástæðum. Ef þú hugsar út í það, Manchester City er með Erling Braut Håland, Liverpool er með Darwin Núñez og hann getur ekki farið til Arsenal.“

Aðspurður hvort hann sjá Kane fyrir sér hjá Bayern: „Hann vill ná markametinu á Englandi. Verði hann í ensku úrvalsdeildinni allt þangað til hann leggur skóna á hilluna þá verður hann markahæsti leikmaður deildarinnar frá upphafi. Það er einstakt afrek.“

Eina leiðin fyrir Kane til að þagga niður í fréttamiðlum er að skrifa undir nýjan samning hjá Tottenham. Sem stendur virðist hann ekki hafa áhuga á því og því verðu forvitnilegt að sjá hvað gerist í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×