Fótbolti

Fyrr­verandi leik­maður KR lést að­eins 28 ára að aldri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mia Gunter í leik með Victoria-háskólanum í Bandaríkjunum.
Mia Gunter í leik með Victoria-háskólanum í Bandaríkjunum. UNIVERSITY OF VICTORIA

Mia Gunter lék með KR í Bestu deild kvenna sumarið 2018. Hún lést á dögunum, aðeins 28 ára að aldri.

Mia kom hingað til lands eftir að hafa spilað í Danmörku. Hún spilaði alla 18 deildarleiki KR og skoraði í þeim þrjú mörk. Tryggði hún KR sigra gegn bæði Selfossi og Þór/KA. Stigin sem KR fékk úr þeim leikjum hjálpuðu liðinu að halda sæti sínu í deildinni.

Mia lést á dögunum en ekki hefur komið fram hver dánarorsökin var. Í minningargrein hennar segir: „Mia elskaði upplifun sína á Íslandi, bæði hvað varðar fótboltann sem og alla þá mögnuðu útivist sem landið hafði upp á að bjóða.“

„Mia myndaði djúp vináttutengsl um allan heim. Það var þannig manneskja og liðsfélagi sem hún var. Hún hvatti fjölskyldu sína til að koma með henni, hvar sem hún var í heiminum. Út af Miu fékk fjölskylda hennar að upplifa Evrópu og Asíu. Ástríða hennar smitaði út frá sér.“

Eftir að alast upp í Kanada þá spilaði Mia í bandaríska háskólaboltanum. Þaðan fór hún Danmerkur og svo Íslands. Mia kom víða við en samkvæmt minningargreininni heimsótti hún alls 35 lönd.

Á morgun, miðvikudag, verður haldin minningarathöfn henni til heiðurs í heimabæ hennar, Edmunton í Kanada.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×