Enski boltinn

BBC og Lineker náð saman og hann snýr aftur á skjáinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gary Lineker nýtti tímann um helgina til að viðra hundinn.
Gary Lineker nýtti tímann um helgina til að viðra hundinn. getty/Hollie Adams

Gary Lineker og BBC hafa slíðrað sverðin og hann verður á sínum stað í Match of the Day um næstu helgi.

Lineker var sendur í leyfi frá störfum af BBC fyrir að gagnrýna innflytjendastefnu bresku ríkisstjórnarinnar. Hann líkti henni við þankagang þýskra nasista.

Sú ákvörðun yfirmanna BBC að setja Lineker út í kuldann sprakk í andlitið á þeim því allir sérfræðingar hættu við að mæta í Match of the Day sem var sendur út í skötulíki um helgina. Þættir laugar- og sunnudagsins voru aðeins samtals 35 mínútna langir.

Nú hafa Lineker og yfirmenn hans komist að samkomulagi um að hann snúi aftur á skjáinn um næstu helgi og BBC hefur beðið hann afsökunar.

BBC mun einnig hefja sjálfstæða rannsókn á því hvernig starfsmenn þess nota samfélagsmiðla.

Lineker, sem er einn markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins, tók við stjórn Match of the Day af Des Lynam 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×