Innlent

Skotið úr byssu inn á The Dubliner í mið­borg Reykja­víkur

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Lögreglan leitar nú skotmannsins.
Lögreglan leitar nú skotmannsins. Vísir/Vilhelm

Rétt upp úr kl. 19.00 í kvöld fékk lögreglan á höfuðborgarsvæðinu tilkynningu um að maður hefði komið inn á The Dubliner við Naustina í miðborg Reykjavíkur og hleypt af einu skoti inn á staðnum.

Skotið hafnaði á vegg við barinn. Maðurinn hljóp síðan strax af vettvangi. Lögreglan brást skjótt við og sendi mikið lið á vettvang ásamt sérsveit og sjúkraflutningamenn voru einnig kallaðir til. Lögreglan vopnaðist og var viðbúnaður mikill.

Enginn slasaðist alvarlega en tveir gestir staðarins fengu aðhlynningu, annar með skrámu á höfði og hinn aðilinn hafði áhyggjur af heyrn sinni. 

Stuttu seinna fundu lögreglumenn skotvopn nærri vettvangi.

 Lögreglan leitar nú skotmannsins og hvetur viðkomandi til þess að gefa sig fram.

DV greindi fyrst frá. Fram kemur að samkvæmt sjónarvottum virðist sem hleypt hafi verið af skotvopni inni á eða við staðinn og líklega hafi verið um haglabyssu að ræða. Samkvæmt sjónarvotti fundust högl í vegg og skilti sem hékk ofan við bar veitingastaðarins.

Í samtali við Vísi staðfestir Gunnar Hörður Garðarsson, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra að sérsveitin hafi verið kölluð til á Tryggvagötu fyrr í kvöld en gat ekki veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Fréttin var uppfærð kl 22.42 eftir að tilkynning barst frá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×