Íslenski boltinn

Úr­slit í leik Stjörnunnar og Víkings standa ó­högguð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr gömlum leik Stjörnunnar og Víkings.
Úr gömlum leik Stjörnunnar og Víkings. Vísir/Elín Björg

Aga- og úrskurðarnefnd Knattspyrnusambands Íslands hefur kveðið upp úrskurði í máli Stjörnunnar gegn Víkingi. Úrslit leiksins standa en Víkingur skal greiða sekt upp á 50.000 krónur.

Þannig er mál með vexti að Stjarnan og Víkingur mættust í Lengjubikar karla í fótbolta þann 16. febrúar. Víkingur vann leikinn 2-1 en Stjarnan taldi að Víkingur hefði „ranglega fyllt út leikskýrslu leiksins með vísvitandi hætti.“

Ingvar Jónsson, markvörður Víkings, fór meiddur af velli og inn í hans stað kom Jochum Magnússon. Sá síðarnefndi var hins vegar ekki skráður á skýrslu en varamarkvörður Víkinga samkvæmt leikskýrslu var Uggi Jóhann Auðunsson.

Stjarnan kærði og vildi að sér yrði dæmdur 3-0 sigur líkt og vani er þegar leikskýrslur eru rangar. KSÍ var hins vegar ekki á sama máli.

Úrskurður aga- og úrskurðarnefndar var eftirfarandi:

„Úrslit í leik Stjörnunnar og Víkings R. í Lengjubikarkeppni karla, sem fram fór þann 16. febrúar 2023, skulu standa óhögguð. Staðfest er sekt Víkings R. að upphæð kr. 50.000, sem félaginu var úrskurðuð 23. febrúar 2023.“

Úrskurðinn má lesa í heild hér.

Víkingar eru á leið í 8-liða úrslit Lengjubikarsins en þeir sitja sem stendur á toppi riðilsins með fullt hús stiga eftir 4 leiki. Stjarnan hefur lokið leik og endar með 8 stig eftir 5 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×