Innlent

Fylgjendatölur Haraldar rjúka upp

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Haraldur Þorleifsson. 
Haraldur Þorleifsson.  Vísir/Vilhelm

Á síðasta sólarhring hefur Haraldur Þorleifsson, frumkvöðull og fyrrum starfsmaður Twitter, bætt við sig rúmlega 70 þúsund fylgjendum á samfélagsmiðlinum.

Haraldur hefur átt viðburðarríkan dag á miðlinum sem hann starfaði hjá þar til honum var sagt upp í vikunni. Honum barst að vísu ekki formlegt uppsagnarbréf og leitaði því svara á Twitter frá Elon Musk, eiganda og forstjóra samfélagsmiðilsins, um hvort hann væri í raun rekinn eða ekki. Upp frá því hófust ritdeilur milli þeirra Haraldar og Musk sem hafa vakið gífurlega athygli. 

Frá því í nótt hefur Haraldur bætt við sig rúmlega 70 þúsund fylgjendum eins og áður segir. Fyrir daginn í dag voru fylgjendur hans um 60 þúsund talsins en eru nú 130 þúsund. Þráður Haraldar, þar sem hann svarar ásökunum Musk um að nota vöðvarýrnun sína sem afsökun fyrir því að geta ekki unnið, hefur einnig vakið gríðarlega mikil viðbrögð. Þegar þetta er skrifað hafa alls 193 þúsund manns líkað við þá færslu Haraldar.

Fyrr í kvöld sagði Musk á Twitter að ástæða þess að Haraldur hafi leitað á samfélagsmiðilinn með spurningar sínar um vinnusambandið hafi verið til að „fá stóran tékka“. Haraldur neitar því í svari og segist hafa leitað á Twitter þar sem Musk hafi ekki svarað einkaskilaboðum hans.  


Tengdar fréttir

Musk hlær að Haraldi sem óttast svik auðjöfursins

Haraldur Þorleifsson, stofnandi Ueno og starfsmaður Twitter, hefur fengið þau svör frá Twitter að honum hafi sannarlega verið sagt upp störfum. Staðfestingin barst honum eftir orðaskipti við Elon Musk, eiganda Twitter, á samfélagsmiðlinum.

Elon Musk hafi stigið í taktíska gildru Haraldar

Almannatengill og æskuvinur Haraldar Þorleifssonar, stofnanda Ueno og fyrrum starfsmanns Twitter, segir að Elon Musk, eigandi Twitter, hafi gengið í gildru með því að svara færslum Haraldar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×