Erlent

Sænskur lög­reglu­stjóri fannst látinn á heimili sínu

Atli Ísleifsson skrifar
Mats Löfving, lögreglustjóri í Stokkhólmi og á Gotlandi og staðgengill ríkislögreglustjóra, er lengst til hægri á myndinni.
Mats Löfving, lögreglustjóri í Stokkhólmi og á Gotlandi og staðgengill ríkislögreglustjóra, er lengst til hægri á myndinni. EPA

Sænski lögreglustjórinn Mats Löfving, sem einnig er staðgengill ríkislögreglustjóra landsins, fannst látinn á heimili sínu í Norrköping í gærkvöldi. Nokkuð hefur gustað um Löfving eftir að hann skipaði lögreglukonu í embætti yfirmanns leynilögreglunnar árið 2015 – konu sem hann átti sjálfur í sambandi við.

„Það er með mikilli sorg og skelfingu sem ég hef tekið á móti þeim upplýsingum að staðgengill ríkislögreglustjóra og lögreglustjórinn Mats Löfving er látinn. Það er mjög sorglegt,“ sagði ríkislögreglustjórinn Anders Thornberg í yfirlýsingu í gær. Löfving varð 61 árs gamall.

Í frétt SVT segir að lögregla í Svíþjóð hafi fengið tilkynningu um særða manneskju í húsi í Norrköping um kvöldmatarleytið í gær. Um var að ræða Löfving sem fannst látinn þegar lögreglu bar að garði. Er rannsókn hafin á málinu. Löfving var lögreglustjóri í Stokkhæólmi og Gotlandi.

„Hugur minn er hjá Mats Löfving, aðstandendum hans og samstarfsfélögum. Við munum reyna að gera allt til að styðja þau á þessum erfiðu tímum,“ sagði ríkislögreglustjórinn. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvað dró Löfving til dauða.

Lögregla í Svíþjóð hefur síðustu mánuðum rannsakað embættisfærslur Löfvings eftir að hann árið 2015 skipaði Lindu Staaf til að stýra leyniþjónustu landsins þegar hann var sjálfur staðgengill ríkislögreglustjóra. Hann átti á sama tíma í ástarsambandi við Staaf.

21 lögreglumaður með meiri reynslu en Staaf sóttu einnig um stöðuna á sínum tíma, og vakti það mikla athygli þegar Staaf var skipuð. Í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar hóf sænska lögreglan rannsókn á málinu og voru niðurstöður hennar gerðar opinberar í gær.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að skipunin á Staaf hafi verið réttmæt, en að Löfving hafi þó verið vanhæfur til að fjalla um ýmis önnur mál sem við komu Staaf.

Löfving sagði niðurstöðurnar vonbrigði í svari til Aftonbladet fyrr í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×