Sport

Ísland ein af 34 þjóðum sem segja nei

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski hópurinn á Vetaróympíuleikunum árið 2018.
Íslenski hópurinn á Vetaróympíuleikunum árið 2018. Getty/Quinn Rooney

Ísland er í hópi 34 þjóða sem hafa mótmælt því formlega að rússneskir og hvít-rússneskir íþróttamenn fái að taka þá í Ólympíuleikunum í París á næsta ári.

Þjóðirnar sendu frá sér yfirlýsingu eftir að hafa farið saman yfir málin á fundi fyrr í þessum mánuði.

Ástæðan er auðvitað innrás Rússa í Úkraínu og stuðningur Hvíta-Rússlands við hana.

Í þessum hópi eru allar Norðurlandaþjóðirnar, Bandaríkin, Bretland, stór hluti Vestur-Evrópu og stórar þjóðir eins og Kanada, Japan og Suður-Kórea. Hér fyrir neðan má sjá kort af þjóðunum sem skrifuðu undir yfirlýsinguna en kortið er aðgengilegt með því að fletta fyrstu síðu.

Alþjóða Ólympíunefndin segist vera að leita leiða til að leyfa rússnesku og hvít-rússnesku íþróttafólki að keppa undir hlutlausum fána. Úkraína tók ekki þátt í fundinum en Úkraínumenn hafa hótað því að sniðganga Ólympíuleikanna ef Alþjóða Ólympíunefndin hleypir Rússum inn á leikana.

Strax eftir innrásina setti Alþjóða Ólympíunefndin pressu á íþróttasambönd heimsins að banna Rússum og Hvít-Rússum að keppa á mótum sínum og þjóðirnar tvær fengu ekki að keppa á Vetrarólympíumóti fatlaðra í mars í fyrra. Íþróttamennirnir fengu þá að keppa undir hlutlausum fánum.

Sum íþróttasambönd bönnuðu ekki Rússa eða Hvít-Rússa og oft hefur íþróttafólkið fengið að keppa undir hlutlausum fána. Hvít-Rússinn Aryna Sabalenka vann þannig Opna ástralska risamótið í tennis í janúar þegar hún keppti undir hlutlausum fána.

Thomas Bach, forseti Alþjóða Ólympíunefndarinnar, hefur talað með því að hleypa íþróttafólki Rússa og Hvít-Rússa aftur inn. Að hans mati er það ekki sanngjarnt fyrir íþróttafólkið að það sé fórnarlamb ákvarðana yfirvalda þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×