Innlent

Myndi aldrei ná að þrífa jafn­mörg her­bergi sjálfur

Máni Snær Þorláksson skrifar
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela
Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela

Framkvæmdastjóri Íslandshótela segir að frestun verkfalla hafi afstýrt hættuástandi hér á landi. Hann bindur vonir við að það leysist úr kjaradeilunni um helgina en býr sig þó undir það versta.

Greint var frá því í gærkvöldi að búið sé að fresta verkfallsaðgerðum Eflingar hjá starfsmönnum Íslandshótela, Berjaya Hotels, Reykjavík Edition, Skeljungs, Samskipa og Olíudreifingu á meðan samningaviðræður Eflingar og Samtaka atvinnulífsins halda áfram.

Að sögn Ástráðs Haraldssonar, setts ríkissáttasemjara, fundu fulltrúar beggja aðila flöt til að halda viðræðunum áfram. Nú eigi alvöru kjarasamningsviðræður að hefjast.

Hættuástandi aflýst

Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, fagnar því að verkföllunum hafi verið frestað. Hann segir að með þessu hafi hættuástandi verið aflýst.

„Auðvitað er búið að afstýra hættuástandi sem hefði hæglega getað skapast hér um helgina. Sem er mjög jákvætt og við fögnum því. Þannig að öll hótelin eru bara opin og taka á móti þessum gestum sem eru að koma til landsins sem er bara mjög jákvætt.“

Davíð segir að hótelin hafi þó orðið fyrir heilmiklu tjóni vegna verkfallsaðgerðanna við það að reyna að flytja gesti og annað slíkt. „Þannig maður er einhvern veginn alltaf skrefi á eftir í þessu. Við erum auðvitað búnir að vera í verkfalli í tíu daga þannig þetta er orðinn langur tími,“ segir hann.

„En við getum auðvitað ekki gert neitt annað en að vera bjartsýn um að viðræðurnar gangi vel um helgina. Að sama skapi erum við búin undir það að þetta geti mögulega haldið áfram eftir helgi. Við bindum samt miklar vonir við það að þetta gangi vel um helgina. Við erum bjartsýn auðvitað en búum okkur undir það versta.“

Hefðu verið í slæmum málum

Ljóst er að ef verkfallsaðgerðunum hefði ekki verið frestað væri staðan á hótelunum önnur í dag og um helgina. „Við hefðum verið í mjög slæmum málum hérna hjá okkur,“ segir Davíð.

„Við byrjuðum að upplýsa gesti okkar um stöðuna strax, bara þegar það var að stefna í verkfall. En það að þetta lengdist svona í verkfallinu og viðræðurnar búnar að sigla í strand og allt það, um síðustu helgi þá fórum við að átta okkur á því að þessar viðræður væru ekki að ganga vel og við þyrftum mögulega að fara að loka hótelum.“

Tölvupóstar hafi því verið sendir á alla þá gesti sem voru að koma á hótelin um helgina. Í póstunum kom fram hver staðan væri og að gestirnir þyrftu að leita sér að annarri gistingu. Hótelstjórnendur höfðu þó áhyggjur af því að upplýsingarnar myndu ekki ná til gestanna. „Þeir eru bókaðir margir í gegnum alls konar millileiðir, milliliði og jafnvel fleiri en einn,“ segir Davíð.

„Þannig við vorum mjög hrædd um að það væru margir sem væru jafnvel kannski ekki að fá þessar upplýsingar. Þess vegna vorum við svona rosalega stressuð yfir því að hingað myndu koma fullt af ferðamönnum til landsins sem væru ekki með þá vitneskju að hótelin væru að loka. Menn hafa verið eitthvað að halda að við höfum ekki verið í sambandi við gestina, það er auðvitað algjörlega fjarstæðukennt. Við erum búin að vera í góðum samskiptum og reynt að ná sambandi við alla gesti til að upplýsa þá um stöðuna.“

„Ég myndi aldrei ná því“

Á meðan að verkfallinu stóð gekk Davíð, ásamt fleirum, í störf hótelstarfsfólksins sem er hjá Eflingu.

„Þetta er bara það sem við erum búin að vera að gera, við sem megum vinna. Við erum búin að vera á fullu í þessu. Ég er búinn að vera staðsettur meira og minna inni á Grand hóteli og er búinn að vera að þrífa herbergi daginn út og daginn inn. Það hefur gengið alveg ótrúlega vel, það að við séum búin að halda úti í tíu daga hérna í verkfalli, það er saga til næsta bæjar.“

Aðspurður hvort hann finni fyrir breyttu viðhorfi gagnvart hótelstarfsfólkinu eftir að hafa gengið í störf þeirra segir Davíð:

„Viðhorfið hefur alltaf verið gott, það hefur ekki verið slæmt viðhorf hjá okkur í þessi störf. Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta eru ekki auðveld störf, þetta tekur á líkamlega, það er álag og ýmislegt sem fylgir þessu. En þess vegna er fólk að vinna vaktir, það vinnur vaktafyrirkomulag og er að vinna jafnvel 16 daga í mánuði og annað slíkt. Þannig það fær góða hvíld inni á milli.

Það er aðdáunarvert að vita til þess að tvær herbergisþernur geti þrifið allt upp í 24-25 herbergi á dag. Ég myndi aldrei ná því.“

Huga þurfi að viðkvæmu orðsporinu

Rætt hefur verið um áhrifin sem langvarandi verkfall getur haft á ferðaþjónustu á Íslandi til lengri tíma. Davíð vekur athygli á því að orðspor Íslands hjá ferðamönnum er viðkvæmt. „Við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að það komi ekki hnökrar á starfsemina hér á landi,“ segir hann.

„Það ber að huga vel að því að það getur haft mjög mikil áhrif þegar svona hlutir gerast. Við vorum alveg viðbúin undir það að leggja allt sem við getum við að hjálpa til að setja upp svona mögulega hjálparmiðstöð, ef það þyrfti að gera það. Leggja til rúm eða veitingar eða eitthvað sem við mögulega gætum. Sem betur fer þá erum við allavega ekki í þeim sporunum núna en auðvitað erum við alveg passasöm upp á að það geti gerst.“


Tengdar fréttir

Alls ekki auð­veld á­kvörðun að fresta að­gerðum

Formaður Eflingar segir það hafa verið erfiða ákvörðun að fresta verkfallsaðgerðum stéttarfélagsins. Ákvörðunin sé þó útpæld og nú er búist við „raunverulegum kjarasamningsviðræðum“.

Vinna á­fram með ramma fyrri kjara­samninga

Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins segir samtökin telja að nú sé meiri forsendur til að ræða um gerð kjarasamnings á grundvelli þeirra sem meginþorri launafólks hefur þegar samþykkt eftir að samkomulag náðist við Eflingu um frestun verkfalla í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×