Innlent

Flutningur á lyfjum og mat gæti stöðvast vegna verk­falla

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sigurjón hefur þungar áhyggjur af stöðunni.
Sigurjón hefur þungar áhyggjur af stöðunni. samsett/Vísir

Framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu deilir þungum áhyggjum með forstjórum hjúkrunarheimila af verkfalli olíubílstjóra sem hefst á morgun. Flutningur á mat og lyfjum gæti skerst verulega sem hefði gríðarlegar afleiðingar í för með sér fyrir viðkvæmasta hóp samfélagsins. 

Forstjóri Skeljungs og framkvæmdastjóri Olís hafa báðir sagt að eftir að verkföll hefjast taki það ekki marga daga fyrir eldsneytið að klárast.

Áhrifin gríðarleg og alvarleg

Sigurjón Norberg Kjærnested, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu hefur miklar áhyggjur af afleiðingum verkfallsins sem yrðu miklar á Hjúkrunarheimilum og öðrum velferðarfyrirtækjum landsins. Starfsfólk gæti átt erfitt með að komast til og frá vinnu og flutningur á mat, lyfjum og öðrum rekstrarvörum til stofnanna og fyrirtækja gæti raskast verulega.

„Við höfum áhyggjur af því að flutningur á skjólstæðingum, þjónustu okkar til og frá dagþjálfun t.d. eða velferðarfyrirtækjum skerðist eða stöðvist,“ segir Sigurjón.

Auk þess sem flutningur til og frá sjúkrahúsum og öðrum heilbrigðisstofnunum gæti raskast.

„Þannig að áhrifin á okkar aðildarfélög eru gríðarleg og alvarleg.“

Þurfa undanþágu

Hann segir að forstjórar Hjúkrunarheimila og annarra velferðarstofnanna hafi þungar áhyggjur.

„Við höfum mjög miklar áhyggjur já. Það er alveg ljóst að starfsemi okkar aðildarfyrirtækja gengur ekki lengi undir þessum aðstæðum ekki nema að það komist á mjög gott fyrirkomulag varðandi undanþágur til að okkar starfsemi geti gengið að fullu áfram.“

Forsvarsmenn samtakanna hafa sótt um undanþágu frá verkfallsaðgerðum og segist Sigurjón vongóður um að Efling taki vel í þær beiðnir.

„Svo við getum haldið áfram fullri þjónustu við okkar heimilisfólk og okkar skjólstæðinga vegna þess að hjá okkur er stór meirihluti legurýma landsins og við erum að þjónusta viðkvæmustu einstaklinga íslensks samfélags þannig það er mjög mikilvægt að við náum góðri niðurstöðu þar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×