Erlent

Arne Treholt látinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Arne Treholt hélt ávallt fram sakleysi sínu.
Arne Treholt hélt ávallt fram sakleysi sínu. Wikipedia/Ole-Christian Bjarkøy

Norski njósnarinn Arne Treholt er látinn, áttatíu ára gamall. Hann lést á heimili sínu á Moskvu þar sem hann hefur verið búsettur síðustu ár. Hann lætur eftir sig son og tvö barnabörn.

Treholt var víðfrægur á tímum Sovétríkjanna eftir sakfellingu fyrir njósnir árið 1985. Hann var skrifstofustjóri í norska utanríkisráðuneytinu þegar hann var handtekinn á Fornebu, flugvellinum í Ósló, hinn 20. janúar 1984. 

Treholt var sakaður um að hafa veitt sovéskum og írönskum leyniþjónustumönnum upplýsingar. Hann var dæmdur í tuttugu ára fangelsi sem var þyngsta refsing sem lög leyfðu. Málið varð mjög umtalað, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum, og hefur í raun verið allar götur síðan.

Treholt var látinn laus úr fangelsi árið 1992 og hóf að starfa sem kaupsýslumaður. Hann flutti til Rússlands og síðar Kýpur þar sem hann bjó um langa hríð. Síðustu æviárin dvaldi hann í Moskvu í Rússlandi.

Norsk þingnefnd tók mál Treholts til meðferðar árið 2011 en í bók sem gefin var út sama ár var norska lögreglan sökuð um að hafa falsað sönnunargögn sem leiddu til sakfellingar Treholts. Hann reyndi þrívegis að fá mál sitt endurupptekið. VG fjallar um málið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Þingnefnd skoðar Treholt-mál

Norsk þingnefnd, sem hefur það hlutverk að fylgjast með upplýsinga-, eftirlits- og öryggisþjónustustofnunum norska ríkisins, ætlar að hefja rannsókn á því hvernig farið var með mál Arne Treholt, háttsetts embættismanns í utanríkisráðuneytinu, sem dæmdur var fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×