Innlent

Vilja nefna hring­­torg í Garða­bæ í höfuðið á fyrr­verandi for­­setum

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Litið er til Bessastaða og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga.
Litið er til Bessastaða og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Vísir/Vilhelm

Menningar- og safnanefnd Garðabæjar leggur til að hringtorg bæjarins verði nefnd eftir fyrrverandi forsetum Íslands. Nöfn torganna skulu merkt með „veglegum og smekklegum hætti.“

„Nefndin leggur til að horft verði til sögu Bessastaða sem er samofin sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Að hafa aðsetur forseta lýðveldisins í bænum er nokkuð sem nefndin telur bæjarsóma og full ástæða til að minna á sögu forsetaembættisins í bæjarlandinu og merkilega áfanga í sjálfstæðisbaráttunni,“ segir í minnisblaði nefndarinnar.

Málið var tekið fyrir á fundi menningar- og safnanefndar fyrr í vikunni og hefur því verið vísað til umhverfissviðs bæjarins.

Leggur nefndin til að torg bæjarins fái nöfn þeirra forseta sem hafa látið af embætti og skal nafngiftin heiðra forsetatíð þeirra. Verði útilistaverk sett upp á hringtorgunum ber að hafa gildi og áherslur forseta að leiðarljósi.

Dæmi sem tekin eru í fundargerðinni eru til að mynda Sveinstorg, Ásgeirstorg, Kristjánstorg, Vigdísartorg og Ólafstorg.

Þá er einnig lagt til að merkum áföngum í sjálfstæðisbaráttunni verði gerð skil á öðrum hringtorgum. Innblástur verði sóttur í náttúru Íslands og þjóðlegar áherslur. 

Með því gætu hringtorg fengið nöfn á borð við Fullveldistorg, Heimastjórnartorg, Sjálfstæðistorg, Lýðveldistorg og Forsetatorg. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×