Erlent

Loft­varna­flautur hljóma og í­búum um allt land sagt að leita skjóls

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Úkraínumenn eru orðnir vanir því að þurfa að leita skjóls þegar flauturnar óma.
Úkraínumenn eru orðnir vanir því að þurfa að leita skjóls þegar flauturnar óma. epa/Oleg Petrasyuk

Loftvarnaflautur hafa hljómað út um alla Úkraínu í morgun og íbúar hvattir til að leita skjóls. Yfirvöld hafa varað við því að Rússar hyggist gera umfangsmiklar loftárásir á landið í dag.

Ráðamenn hafa biðlað til íbúa um að hunsa ekki viðvörunarflauturnar en þingkonan Lesia Vasylenko segir á Twitter að fyrir utan hávært flautið ríki þögn í höfuðborginni Kænugarði, „eins og fyrir storm“.

Samkvæmt færslu sem ríkismiðillinn Suspilne birti á Telegram nú fyrir stundu heyrast sprengingar í Kremenchuk í Poltava. Þá eru loftvarnasveitir á svæðinu sagðar í viðbragðsstöðu. Poltava er í miðri Úkraínu og liggur að Sumy og Kharkív.

Samkvæmt Oleh Synyehubov, ríkisstjóra Kharkív, gerðu Rússar árás á borgina Kharkív og nærliggjandi svæði um klukkan fjögur í morgun að staðartíma. Meðal skotmarka voru mikilvægir innviðir. Eldar kviknuðu í kjölfar árásanna en greiðlega gekk að slökkva þá. 

Íbúar eru víða án rafmagns en enginn féll í árásunum, að sögn Synyehubov.

Reuters hefur eftir orkumálayfirvöldum að Rússar hafi gert árásir á orkuinnviði í morgun.

Úkraínumenn undirbúa sig nú undir umfangsmikla árás og stórsókn Rússa á næstu dögum og vikum, mögulega í kringum 24. febrúar. Þá verður ár liðið frá því að innrásin hófst. Rússar hafa þegar gefið í sókn sína í austurhluta landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×