Íslenski boltinn

Sel­foss og ÍBV fá leik­menn frá Banda­ríkjunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Selfoss tilkynnti nýjan leikmann í dag.
Selfoss tilkynnti nýjan leikmann í dag. Selfoss

Bæði Selfoss og ÍBV hafa sótt leikmenn úr bandaríska háskólaboltanum fyrir komandi tímabil í Bestu deild kvenna í fótbolta.

Selfoss staðfesti í dag að Grace Sklopan myndi leika með liðinu í sumar. Um er að ræða 23 ára gamlan miðjumann sem lék síðast fyrir Auburn Tigers en Virginia Tech þar áður.

„Grace er tæknísk, kvik og mun gefa okkur nýja vídd inni á miðjunni. Hún getur unnið vel bæði sóknarlega og varnarlega og mun eflaust koma að einhverjum mörkum í sumar,“ segir þjálfari Selfyssinga, Björn Sigurbjörnsson.

Þá hefur ÍBV staðfest að hin fjölhæfa Camila Pescatore hafi skrifað undir samning út komandi tímabil. Hin 22 ára Camila leikur oftast nær í vinstri bakverði en getur leyst aðrar stöður á vellinum.

Hún hefur einnig spilað í bandaríska háskólaboltanum en er þó upprunalega frá Venesúela. Hefur hún verið viðloðin A-landsliðið þar í landi.

ÍBV og Selfoss mætast í 1. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta þann 26. apríl næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×