Körfubolti

Kefla­vík og Haukar með risasigra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tinna Guðrún Alexandersdóttir var frábær í kvöld.
Tinna Guðrún Alexandersdóttir var frábær í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Keflavík og Haukar unnu einstaklega örugga sigra í Subway deild kvenna í kvöld.

Topplið Keflavíkur fékk botnlið ÍR í heimsókn og það var aldrei spurning hvort liðið myndi fara á koddann með tvö stig. Gestirnir úr Breiðholti byrjuðu leikinn hins vegar ágætlega og voru „aðeins“ átta stigum undir eftir fyrsta leikhluta.

Eftir því sem leið á leikinn varð munurinn meiri og meiri. Þegar fjórða leikhluta lauk var munurinn orðinn 48 stig, lokatölur 99-51 Keflavík í vil. Sigurinn þýðir að Keflavík heldur toppsæti deildarinnar á meðan ÍR er áfram á botninum.

Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst hjá Keflavík með 19 stig. Hjá ÍR var Aníka Linda Hjálmarsdóttir stigahæst með 15 stig og 7 fráköst.

Sigur Hauka var engu minna sannfærandi. Þar var það ótrúlegur fjórði leikhluti sem var helsta ástæða stórsigursins en Fjölniskonur gátu vart keypt sér körfu framan af síðasta fjórðungi leiksins.

Haukar unnu fjórða leikhluta með 21 stigi og leikinn með 45 stigum, lokatölur í Grafarvogi 46-91 og Haukar því áfram tveimur stigum á eftir toppliði Keflavíkur. Fjölnir er í 6. sæti með 10 stig.

Tinna Guðrún Alexandersdóttir var stigahæst hjá Haukum með 26 stig ásamt því að taka 7 fráköst og gefa 5 stoðsendingar. Hjá Fjölni var Urté Slavickaite stigahæst með 18 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×