Fótbolti

Marka­laust í Ís­lendinga­slagnum á Ítalíu | Jökull hélt hreinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jökull Andrésson hélt hreinu í dag.
Jökull Andrésson hélt hreinu í dag. Harry Trump/Getty Images

Albert Guðmundsson og Hjörtur Hermannsson mættust í Serie B, næstefstu deild ítalskrar knattspyrnu í dag. Willum Þór Willumsson lék 72 mínútur í 0-2 tapi Go Ahead Eagles gegn PSV í Hollandi. Þá hélt Jökull Andrésson hreinu í endurkomu sinni hjá Exeter City í ensku C-deildinni.

Hjörtur Hermannsson spilaði allan leikinn er Pisa náði í stig gegn Genoa á útivelli. Albert Guðmundsson byrjaði á bekknum en kom inn af bekknum þegar rúmlega hálftími var til leiksloka.

Marius Marin fékk tvö gul spjöld með mínútu millibili í liði Pisa og því voru gestirnir manni færri síðustu 20 mínúturnar eða svo. Heimamönnum tókst ekki að nýta sér það og lauk leiknum með 0-0 jafntefli.

Genoa er í 2. sæti með 40 stig að loknum 22 umferðum á meðan Pisa er í 8. sæti með 31 stig.

Jökull sneri aftur í mark Exeter City en hann var lánaðar til liðsins á dögunum frá Reading sem spilar í ensku B-deildinni. Jökull hélt hreinu þegar Exeter vann góðan 2-0 útisigur á MK Dons.

Exeter er í 10. sæti með 38 stig eftir 28 leiki.

Willum Þór var í byrjunarliði Go Ahead Eagles þegar liðið sótti PSV heim í hollensku úrvalsdeildinni. Willum Þór var tekinn af velli þegar staðan var orðin 2-0 PSV í vil.

Willum Þór og félagar eru í 11. sæti með 19 stig að loknum 18 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×