Enski boltinn

Mos­hiri setur E­ver­ton á sölu og vill tæpa níu­tíu milljarða fyrir fé­lagið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Farhad Moshiri ætlar að selja Everton.
Farhad Moshiri ætlar að selja Everton. Alex Livesey/Getty Images

Farhad Moshiri, eigandi enska úrvalsdeildarfélagsins Everton, hefur sett félagið á sölu. Moshiri er sagður vilja fá meira en hálfan milljarð punda fyrir Everton, en það samsvarar tæpum níutíu milljörðum íslenskra króna.

Hinn bresk-íranski Moshiri hefur átt hlut í Everton í að verða sjö ár. Í febrúar árið 2016 seldi hann hlut sinn í Arsenal með það í huga að ætla að safna sér fjár til að taka yfir Everton. Síðar í sama mánuði eignaðist hann svo 49,9 prósent hlut í félaginu, en í janúar á síðasta ári jókst hlutdeild hans í félaginu upp í 94 prósent. Það er breski miðillin The Guardian sem greinir frá því að Moshiri ætli sér að selja félagið.

Moshiri hefur ekki verið vinsælasti maðurinn á Goodison Park, heimavelli Everton, síðustu misseri. Stuðningsmenn félagsins hafa skipulagt mótmæli og kallað eftir því að stjórn Everton segi af sér.

Gengi félagsins hefur heldur ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir seinustu ár. Everton bjargaði sér naumlega frá falli úr ensku úrvalsdeildinni undir lok tímabils, og nú stefnir í að félagið þurfi á öðru slíku kraftaverki að halda til að halda sæti sinni í deild þeirra bestu á næsta tímabili. Everton situr í nítjánda og næst neðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins fimmtán stig eftir tuttugu leiki.

Þá var Frank Lampard rekinn úr starfi sínu sem knattspyrnustjóri liðsins í gær og Everton er því í þjálfaraleit í sjöunda skipti síðan Moshiri keypti fyrst hlut í félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×