Fótbolti

Samúel Kári skoraði gegn Olympiacos | Sverrir Ingi stýrði PAOK til sigurs á topp­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sverrir Ingi og félagar unnu góðan sigur í kvöld.
Sverrir Ingi og félagar unnu góðan sigur í kvöld. PAOK

Það var nóg af Íslendingum í sviðsljósinu í grísku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Aftur missti Hörður Björgvin Magnússon af leik hjá Panathinaikos og aftur tapaði toppliðið fyrir Sverri Inga Sverrissyni og félögum í PAOK.

PAOK vann góðan sigur á Panathinaikos í bikarkeppninni í Grikklandi á dögunum. Sverrir Ingi og félagar gerðu gott betur í kvöld þegar þeir unnu magnaðan 3-0 útisigur. Sverrir Ingi bar fyrirliðabandið líkt og undanfarið, spilaði allan leikinn og nældi sér í gult spjald á 65. mínútu leiksins.

Samúel Kári Friðjónsson og Viðar Örn Kjartansson voru í byrjunarliði Atromitos þegar Olympiacos kom í heimsókn. Ögmundur Kristinsson var ekki í leikmannahópi gestanna.

Samúel Kári skoraði eina mark Atromitos í 1-1 jafntefli en báðir Íslendingarnir voru teknir af velli á 82. mínútu.

Þegar 19 umferðir eru búnar er Panathinaikos með 45 stig í efsta sæti. PAOK er í 3. sæti með 39 stig. Olympiacos er sæti neðar með jafn mörg stig á meðan Atromitos er með 24 stig í 7. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×