Erlent

Dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að af­höfða eigin­konu sína

Bjarki Sigurðsson skrifar
Mona Heydari var sautján ára gömul þegar hún var myrt af eiginmanni sínum.
Mona Heydari var sautján ára gömul þegar hún var myrt af eiginmanni sínum. ILNA

Íranskur karlmaður var í dag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að afhöfða sautján ára eiginkonu sína. Konan hafði flúið land þegar maðurinn vildi ekki leyfa henni að skilja við sig en sneri aftur eftir að fjölskylda hennar sagðist geta tryggt öryggi hennar. Hún var myrt nokkrum dögum síðar. 

BBC greinir frá þessu. Konan, Mona Heydari, hafði gifst manninum, Sajjad Heydari, þegar hún var einungis tólf ára gömul og áttu þau saman þriggja ára gamlan son þegar hún var myrt. 

Hún flúði Sajjad eftir að hafa reynt að skilja við hann. Hún sakaði hann um að hafa beitt sig heimilisofbeldi en hann neitaði sök og neitaði að leyfa henni að skilja við sig. Einhverju síðar sneri hún aftur til Íran en þá hafði fjölskylda hennar lofað henni að hún yrði örugg þar. Nokkrum dögum síðar afhöfðaði Sajjad hana. 

Málið vakti mikla athygli í fyrra en myndir fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum af Sajjad gangandi um götur borgarinnar Ahvaz, haldandi á höfði Monu. 

Talsmaður dómsins segir að vægan dóm megi rekja til þess að foreldrar Monu hafi ákveðið að fyrirgefa Sajjad frekar en að reyna að óska eftir því að hann hlyti makleg málagjöld. Samkvæmt írönskum lögum getur fólk verið dæmt til dauða fyrir morð, nema fjölskylda fórnarlambsins fyrirgefi morðingjanum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×