Viðskipti innlent

Sáu stórar loðnu­torfur við Kol­beins­eyjar­hrygg

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson var í dag við loðnuleit djúpt úti fyrir Norðurlandi.
Hafrannsóknaskipið Árni Friðriksson var í dag við loðnuleit djúpt úti fyrir Norðurlandi. Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Áhöfn hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar hefur fundið stórar loðnutorfur við Kolbeinseyjarhrygg. Þetta er það mesta sem sést hefur af loðnu til þessa í sérstökum aukaleitarleiðangri skipsins, sem hófst á miðvikudag í síðustu viku.

„Já, það var líflegt hjá okkur í gær og í nótt þar sem við sáum allnokkuð af ágætum torfum rétt austan við Kolbeinseyjarhrygginn. Þetta er það mesta sem við höfum séð hingað til í þessari yfirferð okkar,“ sagði Birkir Bárðarson fiskifræðingur í samtali við fréttastofu í dag en hann er leiðangursstjóri um borð.

Birkir Bárðarson fiskifræðingur er leiðangursstjóri.Stöð 2/Friðrik Þór Halldórsson.

Skipið hefur í dag haldið áfram að leita loðnu norður af Kolbeinsey og var undir kvöld á siglingu til vesturs yfir Kolbeinseyjarhrygg. Hér má sé feril skipsins í rauntíma.

„Það verður áhugavert að sjá hvað við sjáum síðan vestan við hrygginn í framhaldinu,“ sagði Birkir.

Leitarferill Árna Friðrikssonar síðustu sjö daga en skjáskotið var tekið á sjöunda tímanum í kvöld.Hafrannsóknastofnun

Vegna takmarkaðs loðnukvóta hafa útgerðir íslensku uppsjávarskipanna haldið að sér höndum með að hefja loðnuveiðar. Þess í stað hafa skipin verið send á kolmunnaveiðar milli Færeyja og Skotlands.

Allir bíða spenntir eftir nýrri mælingu Hafrannsóknastofnunar á stærð loðnustofnsins. Stofnunin hyggst nýta yfirstandandi leiðangur til að meta hvenær heppilegast sé að hefja hefðbundinn stofnmælingaleiðangur loðnunnar. Þá mun hitt rannsóknaskipið, Bjarni Sæmundsson, bætast við.

„Það hefur ekki verið ákveðið hvenær Bjarni Sæmundsson fer af stað. En ég á allavega ekki von á því að það verði fyrir helgi,“ sagði Birkir í dag.


Tengdar fréttir

Hafrannsóknaskip í loðnu úti af Vopnafirði og Langanesi

Áhöfn hafrannsóknaskipsins Árna Friðrikssonar er búin að finna loðnu úti af Vopnafirði og Langanesi. Skipið heldur áfram loðnuleit næstu daga vestur með Norðurlandi í sérstökum aukaleitarleiðangri sem hófst síðastliðinn miðvikudag en byrjað var á því að leita undan sunnanverðum Austfjörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×