Innlent

Leiguskip Eimskips vélarvana vestur af Reykjanesi

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið sett í viðbragðsstöðu. 
Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar hefur verið sett í viðbragðsstöðu.  Vísir/Vilhelm

Uppfært: Vélar flutningaskipsins eru komnar í gang og siglir það nú fyrir eigin vélarafli. Landhelgisgæslan hefur létt á viðbúnaði sínum en dráttarbáturinn Magni mun fylgja skipinu áleiðis til hafnar í Reykjavík.

Upphafleg frétt:

Flutningaskipið EF Ava, sem er leiguskip hjá Eimskip, er vélarvana vestur af Reykjanesi og hefur áhöfnin á varðskipinu Þór og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar verið kallaðar út.

Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir ennfremur að þyrlusveit gæslunnar sé í viðbragðsstöðu. Að auki hafa nálæg skip verið beðin um að halda á staðinn til aðstoðar sem og dráttarbáturinn Magni úr Reykjavík.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fékk tilkynningu um að skipið væri vélarvana á fimmta tímanum í morgun en það rekur í átt til suðurs.

Áhöfn flutningaskipsins freistar þess nú að koma vélum skipsins aftur í gang. Alls eru þrettán um borð í skipinu. Annað flutningaskip er nálægt og er tilbúið að taka skipið í tog ef viðgerð tekst ekki. Landhelgisgæslan hefur upplýst Umhverfisstofnun og Samgöngustofu um málið.

Í tilkynningu frá Eimskip segir að þrettán séu í áhöfn skipsins sem var á leið til Reykjavíkur þegar bilunin kom upp. Unnið er að viðgerð um borð en skipið kom úr stórri viðgerð 15. desember og ekki er vitað enn hvort þessi bilun tengist þeirri viðgerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×