Innlent

Greta Baldursdóttir fallin frá

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Greta Baldursdóttir, í aftari röð fyrir miðju, er ein af fjórum fyrrverandi kvendómurum við réttinn. Í dag eru þrjár konur starfandi sem dómarar við réttinn.
Greta Baldursdóttir, í aftari röð fyrir miðju, er ein af fjórum fyrrverandi kvendómurum við réttinn. Í dag eru þrjár konur starfandi sem dómarar við réttinn. Hæstiréttur

Greta Baldursdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari lést á nýársdag. Frá þessu er greint á vef Hæstaréttar. Greta var 68 ára gömul en hún varð fjórða konan til að verða skipuð hæstaréttardómari árið 2011 og starfaði við réttinn til 2020.

Í æviágripi Gretu á vef Hæstaréttar kemur fram að hún hafi orðið stúdent frá Verslunarskóla Íslands árið 1975 og lokið embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands fimm árum síðar.

Hún lauk þriggja missera rekstrar – og viðskiptanámi frá Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands 1999, starfaði sem dómarafulltrúi við embætti yfirborgarfógetans í Reykjavík 1980 til 1988 og var settur borgarfógeti 1988 til 1992.

Greta starfaði sem deildarstjóri við embætti sýslumannsins í Reykjavík 1992 til 1993, var dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur 1993 til 1994, skrifstofustjóri þar 1994 til 1999 og héraðsdómari 1999 til 2011.

Þá sat Greta í áfrýjunarnefnd samkvæmt lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá 2011 til 2014. Hún var formaður Barnaverndarnefndar Reykjavíkur 1998 til 2006 og átti sæti í stjórn Dómarafélags Íslands 2005 til 2011.

Greta var gift Halldóri Þór Grönvold sem lést í nóvember 2020. Hún lætur eftir sig tvö börn, Evu og Arnar Halldórsbörn, og þrjú barnabörn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×