Erlent

Borga Tókýó­búum milljón krónur á barn fyrir að flytja frá borginni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk bíður í röð eftir að fá að biðja í Sensoji musterinu í Tókýó á nýársdag.
Fólk bíður í röð eftir að fá að biðja í Sensoji musterinu í Tókýó á nýársdag. AP/Hiro Komae

Stjórnvöld í Japan hyggjast nú bjóða fjölskyldum eina milljón króna á barn fyrir að flytja frá Tókýó til strjálbýlari svæða landsins. Markmiðið er að draga úr fólksfækkun á landsbyggðinni.

Íbúafjöldi Tókýó féll í fyrsta sinn í fyrra, meðal annars vegna kórónuveirufaraldursins, en ráðamenn vilja draga enn frekar úr fjöldanum og hafa hvatt fólk til að íhuga að hefja nýtt líf á svæðum sem hafa verið „minna í tísku“.

Hækkandi meðalaldur og brottflutningur ungs fólks til stórborga á borð við Tókýó og Osaka hafa sett mark sitt á umrædd héruð en vilji stendur til að freista þess að snúa þessari þróun við.

Krafa verður gerð um að þeir sem fá flutningsstyrkinn búi á nýja staðnum í að minnsta kosti fimm ár og þá þarf einn fjölskyldumeðlima að stofna nýjan rekstur eða að minnsta kosti að vera í vinnu. Þeir sem uppfylla ekki þessi skilyrði munu þurfa að skila peningunum.

Helmingur fjármunana kemur frá ríkinu en hinn helmingurinn frá svæðinu þangað sem fólk flytur. Vonir standa til að um 10 þúsund manns muni nýta sér úrræðið fyrir árið 2027 en þess ber að geta að íbúafjöldi Tókýó, sem er stærsta borg heims, er 35 milljónir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×